150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu sem ég held sé afar mikilvæg og er partur af því sem hér var fyrr í dag verið að tala um, að það þyrfti að styrkja utanríkismálaumræðu almennt í þinginu. Ég get tekið undir það. Þess vegna finnst manni kannski svolítið skrýtið að þegar skýrslur um utanríkismál eru til umfjöllunar í þinginu þá tæmist þingið. Þetta er svolítið eins og þegar fjárlögin eru komin á dag tvö, þá vantar alla í húsið. Það er eitt að ætla að styrkja umræðuna og annað að fleiri taki þátt í henni heldur en bara fólk sem er í utanríkismálanefnd. Það er alla vega að mínu mati mjög mikilvægt því að þetta er ein af stoðum okkar kerfis, hver stefnan og framkvæmdin er í utanríkismálum almennt.

Hér er til umfjöllunar skýrsla um veru okkar í mannréttindaráðinu í þessa 18 mánuði. Hana bar nú óvænt að, eins og hér hefur verið rakið, og áherslur okkar voru á jafnrétti, börn, hinsegin fólk og loftslagsmál m.a., sem eru svo sem líka áherslumál okkar innan lands.

Herra forseti. Ég tel að seta Íslands í mannréttindaráði hafi verið íslensku utanríkisþjónustunni til mikils sóma sem og orðstír landsins. Á tímum þegar sótt er að fjölþjóðasamstarfi úr ýmsum áttum er mikilvægt fyrir allar þjóðir að taka þátt eftir getu. Ísland sem smáríki sýndi að við höfum þor til þess að standa upp og gagnrýna óréttlæti, að segja við fantinn á skólalóðinni að hann eigi að skammast sín. Við sem smáþjóð getum sagt hluti sem kannski aðrar þjóðir ekki þora eða telja sig ekki geta sagt og það höfum við gert.

Það skiptir líka máli að nota sömu mælistikuna þegar verið er að gagnrýna mannréttindabrot hvar sem er í heiminum, hvort sem það er í Ísrael eða í Sádi-Arabíu eða hvar annars staðar. Ef ekki er gætt að því verður auðveldara fyrir þjóðir að tala um hræsni og þá dregur úr trúverðugleika mannréttindaráðsins sem siðferðilegs áttavita. Það skiptir máli þegar Bandaríkjamenn draga sig úr ráðinu eins og Trump-stjórnin ákvað, sem var ástæðan fyrir því að Ísland kom inn í ráðið. Bandaríkjamenn hafa raunar gert það áður í tíð ríkisstjórnar Georges Bush. Þá mun sjálfsagt ekki vefjast fyrir löndum í framtíðinni að gagnrýna mannréttindabrot annarra meðan þau standa sjálf fyrir brotum. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Í dag eiga sér stað víðtæk mannréttindabrot á Indlandi og Filippseyjum, en þessi ríki eiga bæði sæti í mannréttindaráðinu. Það kann að hljóma hálfhjákátlegt að ríki sem stunda mannréttindabrot eigi sæti í slíku ráði sem ræðir mannréttindi en við Vinstri græn teljum a.m.k. að samtal og samvinna sé það sem skilar árangri. Það sýndi sig að það skiptir máli þegar Ísland fór fyrir gagnrýni 36 ríkja á mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu. Á því er ekki vanþörf enda er ástand mannréttinda þar í landi með þvílíkum ólíkindum. Það gerðum við einnig með því að gagnrýna mannréttindaástand á Filippseyjum, þar sem við uppskárum hótfyndni frá stjórnvöldum þar í landi sem dæmdi sig auðvitað sjálf. Ég man að ég ræddi á ráðherraráðsfundi EFTA við hæstv. utanríkisráðherra akkúrat um þessi mál, m.a. varðandi mannréttindavinkilinn sem við höfum verið að setja inn í alla nýja EES-samninga sem bæði hafa verið uppfærðir og eru nýir. Þá vorum við með til umfjöllunar samninginn við Filippseyjar. Ég held að það sé mjög mikilvægt og þarna hefur það sýnt sig að það skiptir máli að þora að segja hlutina upphátt.

Við lögðum áherslu á réttindi hinsegin fólks þar sem við vitum að víða í heiminum er þeim réttindum einfaldlega ekki fyrir að fara. En auðvitað skiptir máli að nýta þennan vettvang af kostgæfni. Við höfum merkilega sögu um jafnréttismál þrátt fyrir að við vitum það líka að við erum ekki komin á áfangastað í þeim efnum. En við getum bent á hluti sem hafa virkað hér á landi til að auka jafnrétti og við getum bent á hluti sem eru einfaldlega ekki í lagi. Forsætisráðherra ávarpaði mannréttindaráðið sem oddviti ríkisstjórnarinnar og fjallaði þar sérstaklega um tengsl umhverfismála og mannréttinda og það að hún skyldi tala með afdráttarlausum hætti um að stefna ætti að því að rétturinn til heilnæms umhverfis yrði ræddur og samþykktur í ráðinu vakti mikla athygli. Það segir manni kannski svolítið um hvernig málin eru oft rædd á alþjóðavettvangi svona undir rós.

Forsætisráðherra tók líka þátt í sérstakri umræðu um jafnréttismál þar sem áherslan var á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum. Ráðherrann ræddi líka baráttu Íslands fyrir jöfnum launum og var þá að vísa í ályktun um sama efni sem þá var til umræðu í ráðinu sjálfu. Á þessum tíma okkar setu voru ýmsar ályktanir til umfjöllunar, m.a. um vernd baráttufólks fyrir mannréttindum í tengslum við umhverfismál. Ein þeirra fjallaði líka um konur og stúlkur í íþróttum þar sem áréttaður var rétturinn til að ráða yfir eigin líkama, að einstaklingar eigi ekki að þurfa að undirgangast ónauðsynlegar læknisaðgerðir og íhlutanir á líkama sínum. Í fyrsta skipti var viðurkennd sú mismunun sem fólk með óhefðbundin kyneinkenni verður fyrir og að sjálfsögðu studdi Ísland þessa sögulegu ályktun sem borin var upp af Suður-Afríku og við hjálpuðum líka til við að vinna henni brautargengi. Og eins og hér hefur komið fram í dag var þessum stuðningi Íslands sérstaklega fagnað af ILGA, helstu regnhlífarsamtökum hinsegin fólks á heimsvísu. Við munum hvernig hálfur heimurinn að manni fannst fór á hliðina þegar við ræddum m.a. um umskurð drengja hér í þinginu. Hér er í rauninni verið að tala um læknisaðgerðir og alls konar íhlutanir á líkama fólks sem er af sama meiði, að það sé ekki verið að grípa inn í. Það setti einmitt sendiráðið í Washington næstum því á hliðina, það urðu svo mikil læti út af því frumvarpi þegar það kom hér fram í þinginu um umskurð. Það sýndi sig að það skiptir máli að hafa gott fólk að störfum á erlendum vettvangi.

Ísland gerði sig líka mjög gildandi þegar við fórum fyrir ályktun Nýja-Sjálands og annarra um mæðradauða sem helgast af því að Nýja-Sjáland hefur ekki kjörinn fulltrúa í mannréttindaráðinu og þurfti því stuðnings einhvers ríkis og við tókum það að okkur. Þar var verið að leggja áherslu á kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi sem tengjast því. Við þekkjum að mál sem þessi eru yfirleitt umdeild og gjarnan lagðar fram breytingartillögur í mannréttindaráðinu þegar þau koma til kasta þess. Egyptar og Rússar reyndu að láta fjarlægja vísanir til kynfræðslu í texta ályktunarinnar en Ísland fór fram á atkvæðagreiðslu um breytingartillöguna og var henni því miður hafnað með afgerandi hætti. Þrátt fyrir að hún væri felld held ég að við getum verið stolt af því að þessi fyrsta ósk okkar um atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum skyldi vera akkúrat um málefni sem þetta. Stefna okkar í Vinstri grænum er að Ísland eigi að þora að gagnrýna en eiga ekki í illdeilum við neina þjóð. Það að styðja sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða er t.d. ekki árás á Ísrael.

Herra forseti. Að lokum tek ég undir það að mikilvægt er núna, eins og ráðherra kom inn á og kemur fram í skýrslunni, að við förum yfir og skoðum gagnrýnum augum setu okkar í mannréttindaráðinu til að reyna að átta okkur á því hvað tókst vel og hvaða lærdóm má draga og hvernig við myndum vilja haga störfum okkar ef við sækjumst eftir því til að halda áfram. Bæði fulltrúar Human Rights Watch og Amnesty International hafa lofað framgöngu okkar og mér finnst það segja mikið um það hvernig okkur hefur tekist til og ég styð það eindregið að við sækjumst eftir því að eiga fulltrúa í mannréttindaráðinu. Ég tel að við eigum fullt erindi, höfum sýnt það og sannað á þeim stutta tíma sem við höfðum til úthlutunar. Ég tel reyndar að mesti slagkrafturinn sé í því að Norðurlöndin stefni ótrauð að því að eiga fulltrúa í ráðinu. Eins og hér hefur komið fram stendur valið kannski á milli okkar og Norðmanna sem eru að berjast um sæti hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég held að þetta sé mikilvægt og við eigum að reyna að ná saman um það við Norðmenn og ég vona að við berum gæfu til þess að eignast þarna sæti innan fárra ára þannig að við getum haldið áfram að láta vel til okkar taka eins og ég tel að gert hafi verið á þessum stutta tíma.