150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur mér pínulítið á óvart að hv. þingmaður telji þennan pening til 16–17 ára sem eru að hefja sinn framhaldsmenntaveg ekki vera einmitt tæki til þess að sporna við brottfalli. Tækifæri til menntunar er eitt öflugasta tækið okkar í baráttu við fátækt, að byrja á byrjuninni. Við byrjum á byrjuninni á þeim stað að fólk missi ekki af því tækifæri og þá erum við búin að stíga rosalega stórt skref í átt að því að koma í veg fyrir fátækt í framtíðinni. Þetta útilokar að sjálfsögðu ekki nein önnur úrræði. Eins og hv. þingmaður bendir á er barnabótakerfið gjörsamlega úr sér gengið og í tengslum við örorkumat og ýmislegt svoleiðis er fullt af óhagkvæmni í gangi sem væri hægt að gera ýmislegt við og kannski án þess að það kostaði meira.

Það að byrja á skilyrðislausri framfærslu kemur í veg fyrir þetta vandamál sem einkennir núverandi kerfi, fátæktargildru. Fólk er fast í því að geta ekki gert neitt því að þá missir það framfærsluna áður en það getur farið að afla sér menntunar eða atvinnutekna. Það endar í því að það dettur í láglaunastörf þar sem það fær ekki meira en það fær í almennri framfærslu í gegnum almannatryggingar eða annað slíkt. Það á tvímælalaust að byrja á skilyrðislausri framfærslu sem er ekki skert. Það að byrja á þeim stað þar sem fólk missir fyrst af tækifærinu til að losa sig úr fátækt, þegar það er að hefja menntagönguna, er tvímælalaust öflugasta tækið okkar í baráttu við fátækt í framtíðinni.