150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég kem skælbrosandi í pontu, mér finnst þetta svo skemmtileg umræða. Hins vegar tóku margir eftir og nefndu í sérstöku umræðunum sem voru fyrir ekkert svo löngu að allir sáu í gegnum þessa tilraun. Við erum bara að tala um borgaralaun hérna. Þetta eru fyrstu skrefin í átt að borgaralaunum enda er neikvæði tekjuskatturinn hans Miltons Friedmans nákvæmlega sami hluturinn. Það er bara verið að gera það í gegnum skattkerfið og á öðruvísi hátt en borgaralaunin. Niðurstaðan er engu að síður sú sama og þetta er bara fyrsta skrefið í átt að því.

Nú ætla ég aðeins að skjóta á hv. þingmann í andsvari mínu. Það sem mér þykir svo áhugavert er að mér hefur fundist þeir sem eru hefðbundið vinstri sinnaðir hafa tilhneigingu til að hallast í átt að gífurlega mikilli forræðishyggju í vantrausti sínu á því að einstaklingurinn geti ákveðið sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Þá heyrir maður fólk nefna að það sé hrætt við að við séum að gefa fólki peninga af því að peningunum væri betur varið í að bjóða upp á ókeypis framhaldsskóla eða ókeypis frístundir fyrir börn. Ég er alveg sammála því að það væri frábært að hafa ókeypis frístundir fyrir börn og ókeypis framhaldsskóla en við hérna inni vitum ekki alltaf hvað fólki er fyrir bestu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta, t.d. að þegar kemur að hjálparstarfi í fátækum löndum segi aðilar frá ríkum löndum: Hei, við skulum setja peningana í að byggja þetta upp, skóla hérna eða vatnsbrunn hérna. Svo kemur raunverulega í ljós að það sem fólkið þurfti á að halda var eitthvað allt annað. Þegar stofnanir ákveða að gefa fólki bara peninginn beint og sjá hvað það gerir gerast stórkostlegustu hlutirnir, hlutir sem engum hefði dottið í hug að gera, og allt í einu er komið heilt þorp sem er farið að þrífast af því fólkið fékk peningana í hendurnar sjálft og fékk sjálft að ákvarða í hvað það ætlaði að verja þeim. Fólkinu var treyst fyrir því að setja peningana í eitthvað sem var mikilvægt fyrir það og samfélagið allt. (Forseti hringir.) Það er það sem þetta snýst um, það er það sem borgaralaun og neikvæður tekjuskattur og persónuarður snýst um, að treysta fólki til að nýta peninginn á þann hátt sem aðstoðar það við að þrífast.