150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

397. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Málin eru gerólík. Hv. þingmaður segir að þetta sé ekki meitlað í stein og vísunin hafi innifalið í sér samráð við verkalýðsfélögin og aðra þá sem við átti og það má vel vera, ég veit það ekki. Þetta mál kemur fram á svipuðum tíma og mál hv. þingmanns. Ég vil vekja athygli á því að þótt verið sé að taka það fyrir svona seint þá kom það fram snemma í haust. Að mínu mati eru þetta ólík mál, annars vegar að afnema aldurshámarkið og hins vegar að binda það við 73 ára aldur. Það má vel vera að við fáum annars konar umsagnir um þetta mál, þetta eru auðvitað eingöngu opinberir starfsmenn. Ég ber alla vega þá von í brjósti að við fáum góðar umsagnir og ég vona það þá líka að hafin sé vinna í báðum ráðuneytunum. Vissulega var þessu vísað til fjármála- og efnahagsráðherra en ég vona svo sannarlega að við fáum þá bara enn dýpri umræðu um málið sem nýtist í þeirri vinnu til að ákveða hvort við ætlum að binda þetta við einhvern tiltekinn aldur eða hvort við viljum afnema það og þá hvort við viljum eingöngu gera það hjá opinberum starfsmönnum eða hvort við viljum leggja til að það verði með víðtækari hætti. Eins og hv. þingmaður benti á er lagavaldið í okkar höndum þegar við erum búin að fá einhverjar upplýsingar og niðurstöðu, hvort sem það verður ráðherra sem á endanum kemur með eitthvert mál eða hvað, sem ég myndi gjarnan vilja sjá að væri eitthvað sem samtök opinberra starfsmanna vilja.