150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

397. mál
[19:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að koma hingað upp örstutt, ég get ekki á mér setið. Þetta er áhugavert málefni, áhugaverð tillaga sem komin er fram, og í anda þeirrar umræðu sem á sér stað í samfélaginu og í samfélögum í hinum vestræna heimi. Það ber keim af víðsýni og framsýni, og er í anda þeirra tíma sem við lifum á, að draga úr mismunun, misræmi og ójafnræði á milli kynslóða. Við erum ekki að tala um kynjamisrétti núna heldur misrétti á milli kynslóða. Því fagna ég þessari tillögu og mér finnst hún góð að flestu leyti en hún gengur of skammt, hún er of íhaldssöm.

Það var áhugavert að fylgjast með skoðanaskiptum hv. þingmanna Þorsteins Sæmundssonar og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur áðan þar sem deilt var um keisarans skegg, og ekki alveg ljóst hvort hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson skildi hvað um væri að vera. Miðflokkurinn mun hafa lagt fram frumvarp þar sem gert var ráð fyrir þaki upp á 73 ár en hér er ekkert þak. Opinberir starfsmenn hafa heimild til þess, samkvæmt tillögunni, ef þetta verður að lögum, þ.e. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að starfa óhindrað eftir að þeir ná sjötugsaldri. Þannig er það ekki í dag. Þeim ber að ljúka störfum sem launþegar þann dag sem þeir verða sjötugir nánast að kalla en geta unnið áfram sem verktakar eins og bent er á í þessari tillögu.

Þessi tillaga þingmanna margra flokka, sex stjórnmálaflokka, fulltrúa úr þessum sex þingflokkum, er ágæt. Hún kallast dálítið á við aðra tillögu sem lögð hefur verið fram en ekki hefur enn verið mælt fyrir, þ.e. tillögu um brottfall aldurstengdra starfslokareglna sem sá sem hér stendur, ásamt hv. þingmönnum Ásmundi Friðrikssyni og Ólafi Þór Gunnarssyni og fleirum, fulltrúum allra flokka, stendur að. Þar er lyft fram, sem hluta af þremur tillögum, málefnum aldraðra. Í þessari tillögu er lagt til að fela félags- og barnamálaráðherra, í samráði við helstu hagsmunaaðila, að undirbúa og leggja fram frumvarp sem felli brott ákvæði sem takmarka heimildir eldra fólks til að sinna tilteknum störfum þegar ákveðnum lífaldri er náð. Þetta er bara slétt og fellt. Ég tel að við séum að færast nær því og bæði frumvarp Miðflokksins og þingsályktunartillagan sem við fjöllum um hér í dag sýnir að við erum að færast nær því að afnema þessi mörk á vinnumarkaði, en það sé færni, geta og vilji viðkomandi sem fái að ráða.

Eins og hv. flutningsmaður nefndi er ekki með þessari tillögu verið að þrýsta fólki til að halda áfram störfum eða þvinga einn eða neinn í ákveðna átt. Menn eiga sinn rétt en hafa þann möguleika eða rétt að fá að starfa áfram. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu og fyrir tíu árum að skyldubundinn starfslokaaldur sé bein mismunun á grundvelli aldurs og raunar erum við að vísa í þetta ákvæði í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem við samþykktum hér árið 2018. Í þeim lögum er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur beinni eða óbeinni, á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar eða kynvitundar. Þannig að það er nú fótur fyrir þessu í íslenskri löggjöf sem við þurfum kannski að skerpa á. Það er hverjum og einum mjög mikils virði, og það þekkjum við sjálf, að geta valið leiðina, haft val um það hvort við viljum starfa áfram, hvar við viljum starfa, hvenær við viljum ljúka starfi. Þetta getur bara skipt sköpum um það hvort við komist vel af félagslega, hvort við einangrumst, hvort við förum að búa við fátækt.

Það eru ákveðnar starfsgreinar sem hafa það lögfest að fólk skuli ljúka störfum fyrir ákveðinn tíma. Tökum flugmenn sem dæmi, þar er miðað við 65 ár. Það eru ákveðnar starfsgreinar þar sem kröfur eru gerðar um sérstakt atgervi, að fólk hafi sérstaklega góða sjón, sérstaklega góða heyrn og hafi líkamlega burði til að sinna starfinu. Það eru þá málefnalegar og efnislegar ástæður sem hægt er að vísa til. En við þekkjum það sem erum eldri en tvævetur að fólk sem er fullorðið, og það kom fram í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, og hefur kannski starfað áratugum saman er banki reynslu og þekkingar og þessu er allt of oft kastað á glæ. Það er rétt að undirstrika það að þó að þessum viðhorfum sé að vaxa fiskur um hrygg njóta launþegar áfram réttinda sinna og lífeyrisréttinda þar með og geta valið. Það er það dýrmæta að fólk eigi þennan valkost. Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að því leyti til, þó að ég gefi ekki par fyrir frumvarpið þeirra um 73 ára hámarkið, að það eru miklir veikleikar í lífeyrissjóðakerfinu okkar sem við þurfum að takast á við. Stjórnvöld segja að það kosti mikla peninga. Ég er því ósammála. Það kostar ekki mikla peninga. Þetta er spurning um siðferði og spurning um ákvörðun.