150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

555. mál
[11:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess að málið fór til allsherjar- og menntamálanefndar milli umræðna og að hér í þingsal kom fram spurning um hvort verið væri að binda hendur persónuverndarfulltrúa um of og takmarka tjáningarfrelsi þeirra ef þeir verða vitni að einhverju misjöfnu í störfum sínum fékk nefndin álit forsætisráðuneytisins þar sem fram kemur að verði frumvarpið um vernd uppljóstrara að lögum getur þagnarskylda persónuverndarfulltrúa, hvort sem er samkvæmt gildandi lögum eða með breytingum samkvæmt þskj. 914, ekki komið í veg fyrir að þeir hafi rétt til að miðla gögnum og upplýsingum í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Miðlun upplýsinga eða gagna sem fullnægir skilyrðum 2. eða 3. gr. telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Markmiðið með frumvarpi um þagnarskyldu persónuverndarfulltrúa á þskj. 914 er einungis að tryggja að skyldan nái til persónuverndarfulltrúa, hvort sem þeir starfa á opinberum markaði eða almennum vinnumarkaði. Það getur engu breytt um að þagnarskylda beggja hópa myndi falla niður ef til stæði að miðla upplýsingum eða gögnum í samræmi við frumvarp um vernd uppljóstrara. Forsætisráðuneytið telur því, og við eftir umfjöllun um málið í nefndinni, að bæði þessi mál fari vel saman.

Ég vildi bara gera grein fyrir þessu af því að óskað var eftir svörum.