150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við stöndum nú frammi fyrir hnattrænni ógn. Óvinurinn er ósýnilegur, hann er lítt þekktur og óútreiknanlegur. Samt verður það á endanum óvinurinn sjálfur sem mun gefa þann höggstað á sér sem dugar okkur til sigurs. Við vitum að Covid-19 veiran þolir ekki sápuþvott. Við vitum einnig að með aðgerðum sem hægja á smiti getur heilbrigðisþjónustan okkar sinnt þeim sem eru í mestri hættu. Við vitum að þegar ónæmi hefur verið byggt upp gengur faraldurinn yfir.

Við þurfum að muna að hér er um tvenns konar ógn að ræða, yfirvofandi heilsufarsógn og svo efnahagshremmingar. Í báðum tilfellum eru umfangið, tímalengdin og áhrifin enn óþekktar stærðir. Fyrst og fremst er það heilsufarsógnin, baráttan við lítt þekkta lífveru. Aðferðir hennar eru að talsverðu leyti óþekktar þó að þekking aukist dag frá degi. Vísindamenn um heim allan keppast við að skilja þessa ógn betur. Við þurfum að verja viðkvæma hópa fyrir smitum líkt og sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi í gærkvöldi. Þar berum við öll mikla ábyrgð.

Við berum einnig ábyrgð á því að fara eftir tilmælum almannavarna, þrífa hendur, vera heima ef við finnum fyrir einkennum og allt þetta sem við vitum að reynist vel. Við þurfum líka að taka upp símann, hringja í ættingja og vini sem búa kannski einir og hafa verið slæmir til heilsunnar, spyrja þá hvernig þeim líði og hvort þá vanti eitthvað, t.d. úr búðinni.

Við megum ekki gleyma mennskunni og við getum ekki hætt að lifa lífinu þrátt fyrir þessa ógn. Það skiptir máli hvaðan upplýsingar koma. Okkar færasta fólk er í framlínunni þessa dagana. Það fólk færir okkur upplýsingar eins fljótt og auðið er. Við skulum hlusta á almannavarnir, landlækni, sóttvarnalækni, heilbrigðisstarfsfólkið okkar og helstu sérfræðinga úr þeirra hópi.

Svo er það efnahagurinn, en þar blasir við alvarlegt ástand. Það er gjörólíkt því áfalli sem við urðum fyrir í bankahruninu. Það eru skammtímaáhrif af því að ferðamönnum snarfækkar. Þau koma til með að verða mun meiri eftir síðasta útspil Bandaríkjamanna. Þó að erfitt sé að meta hversu mikil áhrifin eru má líkja því við að fá loðnubrest í hverjum mánuði sem þetta ástand varir. Þetta hefur verið erfiður vetur og eflaust líður mörgum eins og hann muni engan endi taka.

En það eru ekki bara vondar fréttir. Útflutningur sjávarafurða jókst um 17 milljarða milli áranna 2018 og 2019 og þorskurinn skilaði okkur 20% meiri verðmætum. Þetta skiptir máli. Við Íslendingar kunnum að glíma við aflabrest. Við kunnum að glíma við óþekktar aðstæður og við gerum það saman. Félagslegu kerfin okkar sem hafa verið byggð upp í gegnum árin og styrkt síðustu ár af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur munu skila sínu. Við njótum þess líka að ríkissjóður og þjóðarbúið stendur vel og getur tekist á við áföll. Mikilvægt fyrsta skref var kynnt í síðustu viku þegar aðilar vinnumarkaðarins og ríkið náðu samkomulagi um að tryggja öllum laun sem fara í sóttkví. Þegar launafólk axlar sameiginlega ábyrgð á því að lágmarka útbreiðslu veirunnar á það auðvitað ekki að bitna á kjörum þess.

Eins og við þekkjum kynnti ríkisstjórnin á þriðjudaginn fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum. Þær snúa að því að verja hér efnahagslegan en jafnframt félagslegan stöðugleika. Það er ekki hægt að aðskilja þessa tvo hluti, enda snýst þetta ekki um fyrirtæki eða almenning því að eins og við vitum verða vandamál fyrirtækja að vandamálum almennings og öfugt. Þess vegna er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að fólki verði sagt upp með því að tryggja lífvænlegum fyrirtækjum lausafé. Það þarf að huga sérstaklega að ýmsum hópum sem hugsanlega falla milli skips og bryggju í mótvægisaðgerðum, t.d. einyrkjum.

Landlæknir líkti baráttunni við kórónuveiruna og þann sjúkdóm sem hún veldur við stríð fyrir nokkrum dögum. Í þeirri baráttu breytast orrusturnar frá degi til dags og það getur verið ástæða til að banna og loka í dag og leyfa og opna hinn daginn. Það sem gert er þarf að byggja á grunni bestu þekkingar á hverjum tíma og það mun reyna á okkur öll á næstu mánuðum að taka ákveðið og yfirvegað á málum. Það má hafa efasemdir um að sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að loka Bandaríkjunum í mánuð sé skynsamleg. Því ætla ég að leyfa mér að fagna því að utanríkisráðherra hafi nú þegar mótmælt þeirri ákvörðun við sendiherra Bandaríkjanna. Mismunandi og misvísandi viðbrögð ríkisstjórna gætu gert illt verra í baráttunni við veiruna.

Það er líka mikilvægt að muna að þetta er tímabundið ástand, jafnvel þó að það gæti á einhverjum tímapunkti virst heil eilífð. Í rauninni finnst manni í dag eins og þetta sé heil eilífð þó að það sé ekki nema rétt rúm vika. En hver veit? Í baksýnisspeglinum gæti þetta tímabil hafa varað stutt. Sama hvernig fer munum við kljást við þetta saman, heilbrigðisyfirvöld, stjórnvöld, almenningur og atvinnulíf. Við erum öll í sama báti og saman munum við gera það sem til þarf.