150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir ágæta umræðu. Ég greini um margt samstöðu í þessum sal í greininni, samstöðu um það að skammtímaaðgerða er þörf til að styðja við atvinnulífið í landinu til að fleyta því yfir þessar tímabundnu þrengingar. Ég greini samstöðu um þá hugsun að í öllum okkar aðgerðum verðum við að tryggja velferð og réttindi fólksins í landinu, að það sé ávallt okkar leiðarljós í því sem við gerum. Ég greini líka samstöðu um að fólk vill sjá fjölbreyttar fjárfestingar, fjölbreyttar aðgerðir, að fjárfestingar snúist ekki bara um að leggja fleiri vegi, sem er vissulega mikilvægt, heldur þurfum við að horfa til fjölbreytni, grænna lausna, skapandi greina, nýsköpunar og rannsókna.

Ég greini líka samstöðu um traust á heilbrigðisyfirvöldum okkar, á því fólki sem er vakið og sofið yfir því að tryggja velferð okkar allra, tryggja að við náum að hemja útbreiðslu veirunnar, að við náum að hægja á faraldrinum til að tryggja að innviðir okkar standist álagið og hefur gefið sig allt í það. Það er mikilvægt.

Ég hlýt að segja að sá munur er á mér og hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að ég var á staðnum, ég var í ríkisstjórninni 2009–2013, og eftir það sem við gengum í gegnum þá saman, þeir flokkar sem þá sátu í ríkisstjórn, dytti mér ekki í hug að halla orði á félaga mína í Samfylkingunni og mér dytti ekki heldur í hug að þeim sem þá voru á staðnum dytti í hug að halla orði á þann sem til að mynda stóð í stafni í fjármálaráðuneytinu, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sem með þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, leiddi þá ríkisstjórn og þá endurreisn sem hún stóð fyrir. Mér dytti ekki í hug að gera lítið úr því að þarna voru tveir flokkar sem þurftu að takast á við stór verkefni. Ég held að þegar við horfum á stöðuna eins og hún er í dag skipti einmitt máli að hafa verið á staðnum þegar það gekk yfir og átta sig á að við þurfum að vera með langtímasjónarmiðin á hreinu, kunna að meta það sem allir eru að gera og átta okkur á því að við erum öll mikilvæg í verkefnunum fram undan, hvort sem við erum hluti af ríkisstjórn eða Alþingi.

Það er horft til þess sem við gerum og við eigum mikil tækifæri í að gera það vel. Ástandið er tímabundið og við höfum tækifæri í því að standa okkur í gegnum það.