150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi fagna því að þessi tillaga er komin fram. Mér þykir það kannski táknrænt að hún skuli koma fram á þinginu núna þegar nýbúið er að dæma til fangelsisvistar hugsanlega holdgerving þess kerfis sem hefur farið fram með ofbeldi gagnvart konum sérstaklega og nýtt sér yfirburðastöðu sína og er kannski sú persóna sem hratt af stað því átaki sem við þekkjum undir nafninu #églíka. Mér þykir mjög táknrænt að tillagan skuli koma fram akkúrat um þetta leyti og sýnir okkur kannski hvernig hægt er að vinna mál áfram og hvernig hægt er að hafa áhrif inn í framtíðina.

Það var reyndar annað atriði sem ég vildi koma á framfæri varðandi þingsályktunartillöguna áður en hún fer til nefndar. Hún er mjög vel samansett og skýr markmið sett, hverjir séu samstarfsaðilar o.s.frv., ég fletti tillögunni og það vakti athygli mína að ég sá hvergi þjóðkirkjuna. Í þessu plaggi sá ég hvergi þjóðkirkjuna eða önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Ef við erum að tala um forvarnir og ef við ætlum að byrja t.d. strax í barnastarfi er hægt að vekja athygli á því að þjóðkirkjan stendur fyrir mjög öflugri barnastarfi. Það ætti auðvitað að kenna fólki um samskipti, viðmið og landamæri líka í t.d. fermingarfræðslu og annarri fræðslu sem fylgir því sem kallað er borgaraleg ferming, en er kannski frekar manndómsvígsla vegna þess að í borgaralegri fermingu er ekki verið í sjálfu sér að staðfesta neitt heldur er verið að innræta siðfræði, sem er náttúrlega mjög gott. Hér er talað um skólana og leikskólana og ef við ætlum að taka þetta spektrúm og ef við erum að hugsa um uppeldisleg áhrif og hafa áhrif á öll kyn til framtíðar, tel ég að til að ná enn betri og enn breiðari skírskotun þá ætti kirkjustarf og starf trúfélaga heima í þessari tillögu. Ég stóð nú upp mest til að benda á þetta til að hægt verði að taka það til umræðu og athugunar þegar væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd tekur við málinu. Mér fannst þetta stinga í stúf miðað við hversu vel aðgerðaáætlanirnar eru meitlaðar og hversu vel er tekið til hverjir eiga að taka þátt. Mér fannst þetta atriði eiginlega vanta inn í og á því vildi ég vekja athygli.

Ég segi aftur: Ég fagna því að tillagan er komin fram. Það vill svo til að akkúrat í þessari viku hefði átt að standa yfir mjög glæsileg ráðstefna vestur í New York á vegum Sameinuðu þjóðanna, hún stendur reyndar yfir en er mjög fámenn miðað við það sem venjulega er. Það sem er kannski merkilegt fyrir okkur Íslendinga varðandi akkúrat þá ráðstefnu er að hlustað er mjög gaumgæfilega á rödd Íslendinga, bæði á þessum ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og líka er hlustað mjög rækilega eftir rödd Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar jafnréttismál ber á góma. Það er litið til Íslendinga um framfarir og þróun í jafnréttismálum og forvörnum. Þess vegna gerir það mann líka stoltan að þessi tillaga skuli vera komin fram og að það sé t.d. hægt að kynna þessa áætlun á næstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem tekur til bæði kvenna og barnastarfs o.s.frv. Ég held að við ættum að gera það, við ættum að sýna alheiminum hvað það er sem við getum og hvað við erum að gera og getum fært fram í þeim efnum. Ég veit að við Íslendingar höfum gert það m.a. í þróunarstarfi o.s.frv. en ég tel að við eigum að halda á lofti hlutum eins og þessum.

Ég tel að þessi tillaga staðfesti einmitt það hversu ríkur vilji er á Íslandi til að efla forvarnir og efla baráttuna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og enn fremur að vekja athygli á þeirri áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina lagt á jafnréttismál í víðustum skilningi þess orðs.