150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

upplýsingalög.

644. mál
[16:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, við horfum til þess að gefinn sé þröngur frestur til að leita eftir þessari undanþágu, sjö dagar, og síðan sé það flýtimeðferð fyrir dómstólum fari svo að úrskurðarnefndin fallist á það. Ég nefndi hér hlutföllin eins og þau hafa verið gagnvart opinberum málum þannig að við erum fyrst og fremst að segja að sama regla gildi milli opinberra aðila og einkaaðila. Í því eru fólgin ákveðin jafnræðisrök og við töldum rétt — ef hv. þingmann rekur minni til þeirra umsagna sem bárust við upplýsingalagafrumvarpið á sínum tíma — að bregðast við þessu. Við teljum að með því að hafa rammann þröngan og heimildirnar þröngar feli þetta ekki í sér takmarkanir á upplýsingarétti almennings.

Hvað varðar Framkvæmdasýsluna nýtur hún ákveðinnar sérstöðu sem sú stofnun sem í raun annast opinberar framkvæmdir, hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, þ.e. byggingarframkvæmdir. Þetta er í raun vegna ábendinga sem hafa borist um að mikilvægt sé að geta afhent vinnugögn og þau séu áfram bundin trúnaði sem vinnugögn áður en þau verða endanleg við undirbúning margháttaðra slíkra framkvæmda. Við vildum taka tillit til þess. Það kann að vera að eitthvað svipað, og ég tel að nefndin ætti kannski að ræða það, gæti til að mynda átt við um Vegagerðina sem er hin stóra framkvæmdastofnunin. Það þekki ég ekki. En þetta er vegna ábendinga sem við fengum frá Framkvæmdasýslu ríkisins.