150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fagna því að málið verði tekið inn í nefnd til þess að skýra þetta vegna þess að við hv. þingmaður erum augljóslega ekki að tala sama tungumálið. Þá er kannski mikilvægt að eiga samtal um efni og inntak þessarar greinar, sér í lagi þegar um jafn mikilvæg réttindi er að ræða og lagaákvæðin sem við ræðum hér. Nú er hv. þingmaður búin að endurtaka fyrir mig nokkrum sinnum innihald þessa ákvæðis og ég finn mig knúna til að endurtaka einu sinni enn fyrir hv. þingmann hvað stendur í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar kemur fram að ráðherra geti veitt ákveðinni sveitarstjórn „… heimild til að haga stjórnsýslu sinni þannig að vikið sé frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga í allt að fjóra mánuði í senn. Ekki er tekið fram í frumvarpsgreininni til hvaða lagaákvæða sveitarstjórnarlaga slík ákvörðun geti náð en það gæti oltið á aðstæðum í hverju tilviki. Gera má ráð fyrir að helst komi til skoðunar ákvæði laganna er varða fyrirkomulag funda og lögmælta fresti, t.d. um skil ársreikninga og fjárhagsáætlana. Einnig mætti skoða að víkja tímabundið frá verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar og […] valdaframsal til fullnaðarafgreiðslu mála.“

Þetta eru allt ágætishugmyndir. En af hverju er það þá ekki bara skýrt tilgreint? Hér er bara verið að gefa ráðherra hreint borð sem hann getur skrifað á það sem hann vill, það sem sveitarstjórnir geta skrifað á það sem þær vilja aftengja í þessum lögum. Þetta er ekki nógu vel skilgreint. Listum frekar upp í lögunum hvað við eigum við, hvaða ákvæði við erum tilbúin að fórna í neyðarástandi en ekki gefa algerlega ótakmarkaða heimild fyrir því að víkja frá sveitarstjórnarlögum eins og núverandi orðalag gerir ráð fyrir. Það kemur mjög skýrt fram að það er ekki afmarkað (Forseti hringir.) hvaða ákvæði laga er hægt að aftengja með þessu frumvarpi.