150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á þegar við metum aðgerðir stjórnvalda að við þurfum að taka með í reikninginn sveiflujöfnun kerfisins í heild eins og hún er sett upp. Þá er ég að vísa til þess að tekjuöflunarkerfi ríkisins eru með innbyggða gríðarlega mikla sveiflujöfnun. Það mun t.d. birtast okkur þannig á þessu ári að tekjur ríkisins munu falla um tugi milljarða miðað við það sem áður var áætlað. Þannig erum við án þess að gera sérstaklega nýja ráðstöfun þegar búin að byggja inn í kerfin okkar sveiflujafnandi fyrirbæri. Þegar við spyrjum þess vegna hvað stjórnvöld ætla að gera í heildina myndi ég ávallt líta á sveiflujöfnunarkerfin til viðbótar við það sem gerist í nýjum beinum ákvörðunum. Ég vek athygli á því að ríkissjóður mun þurfa að taka á sig tugmilljarðatap fyrir utan allar aðrar aðgerðir sem við erum að fara í.

Þegar kemur hins vegar að heildarumfangi beinna nýrra aðgerða, svo sem eins og niðurfellingar á sköttum, get ég ekki svarað því nákvæmlega á þessari stundu. Ég verð ekki talsmaður smáskammtalækninga í því. Það sem ég vil gera og nota sólarhringana fram undan til að glöggva mig betur á er að skilja eftir m.a. samtal við atvinnulífið um hvers konar aðgerðir myndu helst gagnast.

Það er rétt sem bent er á, aðrar ríkisstjórnir hafa komið fram með mjög markvissar aðgerðir. Ég held að menn séu samt sem áður enn þá dálítið að skjóta í myrkrinu í því og það er oft ekki fyrr en menn tefla fram aðgerðum sem menn fá viðbrögð og einhver mótrök við því og bent er á aðrar leiðir. Við þurfum að gefa okkur einhvern lágmarkstíma í að útfæra (Forseti hringir.) slíkar tillögur.

Tugmilljarðaaðgerðir eru þó alltaf það sem við erum að tala um þegar á heildina er litið með sveiflujafnandi hlutverki tekjuskattskerfisins.