150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn styður þetta mál. Það er gott, svo langt sem það nær. Miðflokkurinn er á nefndaráliti meiri hlutans og það er jákvætt sem kom fram á fundi nefndarinnar fyrir skömmu, að Samtök atvinnulífsins eru ánægð með frumvarpið. Maður spyr óneitanlega hvort þessi aðgerð dugi. Dugar þetta litlum og meðalstórum fyrirtækjum? Það var svolítið sérstakt innan nefndarinnar að það gætti pirrings hjá formanni nefndarinnar yfir því að við ræddum hugmyndir og aðrar útfærslur, hvort þetta dygði o.s.frv. Ég tek undir það sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði þegar hann rakti þetta mál hér aðeins áðan, að í svona máli sem er gríðarlega mikilvægt að full samstaða ríki um og skili þeim árangri sem stefnt er að er fullkomlega eðlilegt að menn geti reifað ýmsar útfærslur á málinu innan nefndarinnar án þess að formaður og meiri hlutinn sé pirraður yfir því og vilji í raun og veru ekki ræða málið frekar. Það finnst mér ekki gott veganesti inn í það sem fram undan er. Hér eru mörg mál sem á eftir að ræða eins og fram hefur komið, aðstoð þegar kemur að atvinnulausum og þeim sem eru að missa vinnuna, virðisaukaskattsmál og annað slíkt. Það eru fjölmörg mál sem á eftir að ræða í þessu samhengi og mér finnst þetta ekki byrja nógu vel, a.m.k. eins og ég upplifði á nefndarfundi efnahags- og viðskiptanefndar áðan.

Vonandi verður breyting á því. Hv. formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, boðaði í ræðu sinni áðan að að hann myndi beita sér fyrir samstarfi við minni hlutann. Ég ætla rétt að vona að það standi þá, að það séu ekki bara falleg orð sem sögð eru og síðan þegar kemur að því að standa við þau verði menn pirraðir, æstir og reiðir yfir því að menn komi með einhverjar hugmyndir. Það eru ekki þau vinnubrögð sem við eigum að viðhafa hér í svona stóru máli og það eru ekki þau vinnubrögð sem þjóðin vill sjá. Við eigum að koma með sameiginlegar lausnir sem allir geta verið sáttir við og duga til að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir. Auðvitað eru allir af vilja gerðir til að gera sitt besta í þeim efnum.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að þetta er tímabundin aðgerð. Það þarf varanlegar aðgerðir sem við eigum öll að standa að og það á að eiga samráð við alla flokka í öllum aðgerðum. Þetta er að okkar mati ágætt fyrsta skref eins og sagt er. Við megum þó ekki gleyma því, herra forseti, og það ber að hafa í huga að miðað við óbreytt ástand verður ekkert auðveldara að borga síðar. Verður eitthvað auðveldara að borga 1. apríl en á gjalddaganum 1. mars? Það er það sem blasir við. Ég held nefnilega einmitt að þá sjáum við að eitt af þessum brýnu verkefnum er núna að koma okkur af ferðabannslista Bandaríkjanna sem er alveg ótrúleg aðgerð af vinaþjóð okkar í Atlantshafsbandalaginu sem við eigum varnarsamstarf við. Hver dagur í þeim efnum er okkur gríðarlega dýr þannig að það er forgangsmál að reyna að koma okkur af þeim lista. Ég vænti þess að utanríkisráðherra beiti öllum sínum ráðum í þeim efnum í næstu viku þegar hann kemur til með að hitta utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi að fylgjast mjög vel með stöðu krónunnar og genginu. Það er mikilvægt að bregðast við ef sýnt þykir að gengið muni falla óeðlilega hratt, að við grípum inn í það vegna þess að það hefur áhrif á heimilin í landinu, gerir það að verkum að lán landsmanna hækka, fer út í verðlagið o.s.frv. og þá erum við komin út í hluti sem við viljum alls ekki sjá.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það verði gott samstarf við stjórnarandstöðuna í þessum efnum. Við í Miðflokknum erum tilbúin í allt samstarf. Við höfum góðar hugmyndir og vonandi verður hlustað á okkur í þeim efnum.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, koma inn á það sem stendur í nefndarálitinu og formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, nefndi í ræðu sinni. Neðarlega í nefndarálitinu er vikið að hvötum fyrir þau fyrirtæki að borga á mánudaginn sem geta það. Það er mikilvægt í mínum huga að þau fyrirtæki sem geta borgað geri það. Ég hefði viljað sjá einhvers konar útfærslu hvað þetta varðar, einhvers konar hvata til þessara fyrirtækja vegna þess að það munar að sjálfsögðu um að þetta komi inn í ríkissjóð á réttum tíma.

Að öðru leyti styðjum við í Miðflokknum þetta mál og leggjum áherslu á að hér er jákvætt fyrsta skref í aðgerðum sem þarf að ríkja samstaða um og þarf að skila tilætluðum árangri.