150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir til aðstoðar heimilunum.

[13:52]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég átta mig á því að fyrirtækin búa til atvinnu en ég var samt ekki að spyrja um þau beint. Ég er að reyna að fá ráðherra til að setja sig í spor venjulegs Íslendings og upplýsa hvað hann ætlar að gera til að vernda manneskjuna, ekki stofnunina sem manneskjan vinnur hjá, manneskju af holdi og blóði sem óttast um lífsviðurværi sitt, sem óttast um húsnæðislánin sín, öryrkjana sem óttast að bæturnar séu allt of lágar, manneskjuna sem óttast verðbólgu eða hrun á krónunni. Við erum að tala um námsmenn sem óttast að geta ekki stundað nám lengur. Það er svo margt í gangi í samfélaginu, annað en bara það hvernig við getum aðstoðað fyrirtækin. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað vill hann segja við það fólk sem hefur þessar áhyggjur í samfélaginu?