150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

frumvörp um atvinnuleysisbætur.

[14:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi samspil á milli námsmanna og síðan atvinnuleysisbótakerfisins snýr það frumvarp sem við erum að ræða hérna núna að því að reyna að hvetja atvinnulífið til þess að fara frekar yfir í hlutabótakerfi í stað þess að segja upp fólki.

Varðandi námsmenn og samspil alls sem lýtur að námsmönnum annars vegar og þessari fordæmalausu stöðu, svo maður noti það orð eins og flestir hafa gert, höfum við í félagsmálaráðuneytinu verið í talsvert miklu samtali við menntamálaráðuneytið um það hvernig við náum utan um þann hóp og þann þátt þessa máls. Þeirri vinnu er einfaldlega ekki lokið, svo það sé alveg heiðarlega sagt. Við höfðum ætlað að gefa okkur aðeins lengri tíma í þetta en þegar hvert landið fer að loka á fætur öðru þurfa menn að hlaupa hratt og við náðum ekki að klára það samhliða þessu. Það er algjörlega heiðarlegt að segja það. Það er hins vegar næsta verkefni.

Varðandi bakvarðasveitina sem er verið að setja af stað eru réttindi fólks sem gefur kost á sér í það eitt af því sem við erum að skoða núna. (Forseti hringir.) Það er alveg ljóst að við munum þurfa starfsfólk víða að inn í félagsþjónustuna til að sinna þessum viðkvæmu hópum og erum þegar farin að sjá það.