150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir þetta frumvarp, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví. Ég er með tvær spurningar. Hæstv. ráðherra kom inn á annað atriðið, þ.e. hvort við þurfum ekki að taka tillit til foreldra skólabarna í ljósi aðstæðna varðandi samkomubann. Við höfum fengið ábendingar um það nú þegar í hv. velferðarnefnd. Hæstv. ráðherra fór yfir þetta með skólabörn og þá ákváðum við einhvern aldursramma þar, en það er annar hópur sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um og hann varðar börn við sérstakar aðstæður, börn með fötlun, börn sem glíma við sjúkdóma og erfiðleika sem eru í skólakerfinu en þurfa sólarhringsumönnun. Þessi börn fá núna skerta þjónustu hvar sem er í kerfinu, hvort sem er í skólakerfinu eða annars staðar vegna samkomubanns. Þurfum við ekki að tryggja þau líka?