150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

um fundarstjórn.

[18:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að þrasa mikið um þetta í ljósi þess að forseti hefur ákveðið að setja þingfund og það þýðir að nefndarfundi var slitið eða frestað. Ekki voru allir gestir búnir á fundi velferðarnefndar þrátt fyrir að það væri mál sem skiptir aðeins meira máli í það minnsta en það mál sem hér er verið að ræða, þetta þjóðlendumál, sem algjörlega getur beðið. Það er óskiljanlegt af hverju stjórnarmeirihlutinn er að berja það í gegn að óbyggðanefnd geti jafnvel tekið upp gömul mál og farið aftur af stað.

Er aðalmálið núna hjá ríkisstjórninni að klára þetta mál, þjóðlendumálið, og fresta og slíta nefndarfundi í velferðarnefnd sem er að ræða stórmál sem skiptir máli fyrir daginn í dag? Ef það er sú fundarstjórn sem við viljum sjá hér, ef það er það skipulag sem við viljum sjá á þinginu, hljótum við að taka því og fara í þá umræðu sem forseti boðar til. Þetta er mjög sérstakt þar sem gestir höfðu ekki allir komist að á fundi velferðarnefndar.