150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til breytinga á lögum um þjóðlendur. Ég vil fyrst gera þá athugasemd, eins og ég gerði í fundarstjórn áðan, að mér þykir það sæta mikilli furðu að þetta mál sé komið inn í dag til 3. umr., og þar með til lúkningar, á þeim tímum þar sem sérstaklega eru lagðar þær línur af hæstv. forseta Alþingis og fyrirsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að stjórnarandstaðan verði þægileg og liðleg hvað það varðar að liðka fyrir málum, og jafnvel þannig að nefndarformenn bregðast hinir verstu við ef stjórnarandstöðuþingmenn vilja spyrja einfaldra spurninga á nefndarfundum og velta upp hvort hægt væri að gera tiltekna hluti með skynsamlegri hætti en ráðherra kemur til hugar hverju sinni. Mér þykja þetta í meira lagi skrýtin skilaboð á fyrstu dögum þeirrar vegferðar sem þingið allt er að leggja upp í núna, þegar beðið er um samheldni og skilning á því að skynsamlegt sé og nauðsynlegt að allir rói í sömu áttina, að þá séu þetta skilaboðin sem eru send inn í þingið, að nú skuli lauma inn málum sem einhverjum ríkisstjórnarflokkanna þykir haganlegast og best að séu rædd hálfpartinn í kyrrþey. Það er með slíkum ólíkindum að fundi velferðarnefndar hafi verið slitið fyrir réttum hálftíma, á meðan gestir voru enn að bíða eftir að komast að á þeim tiltekna fundi til þess að koma þessu máli til lokaumræðu og þar með lúkningar fyrir utan atkvæðagreiðslu, að ég verð aftur að gera við það alvarlegar athugasemdir. Ég veit að hæstv. forseti sem nú situr í pontu hefur mikinn skilning á þessum sjónarmiðum.

Svo að ég komi mér nú aðeins að málinu. Hv. þm. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom hér inn á að hann legði mikla áherslu á að efnisatriði málsins yrðu rædd og það er nauðsynlegt og sjálfsagt. En fyrst vil ég segja nokkur orð um ferlið frá 2. umr. og meðhöndlun nefndarinnar. Það var þannig að í 2. umr. fyrir ekki svo löngu var tilkynnt, og okkur sem höfðum áhyggjur af málinu var sagt, að málið yrði tekið inn til nefndar á milli umræðna í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem fram hefðu komið og tekið til ígrundaðrar skoðunar. Síðan gerist það að málið fer til nefndarinnar og hverjir eru kallaðir fyrir nefndina? Það eru fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, fulltrúar forsætisráðuneytis og óbyggðanefndar. Án þess að þurfa að skilgreina mikið þá hópa þá eru þetta aðilarnir sem skrifuðu frumvarpið, geri ég ráð fyrir. Þeir voru kallaðir til skrafs og ráðagerða um það hvað væri að þessu blessaða frumvarpi. Í þeirra huga var ekkert að frumvarpinu. Málið var tekið úr nefnd 12. mars. Það lagðist enginn gegn því. Ég hef leyfi til þess að upplýsa hér að fulltrúi Miðflokksins í nefndinni hefur það sem prinsipp að leggjast ekki á móti því að mál séu tekin úr nefnd þegar meiri hluti er fyrir því en fulltrúi Miðflokksins óskaði eftir því að málið yrði ekki tekið út á þeim tímapunkti til að rými væri fyrir frekari gesti. Daginn eftir að mál var tekið út úr … (BÁ: Kom það fram?) — það verður bara að óska eftir staðfestingu á því frá hv. þingmanni. (Gripið fram í.) Daginn eftir að málið er tekið úr nefndinni berst umsögn frá Æðarræktarfélagi Íslands, Æðarverndarfélagi Snæfellinga og Æðarvéum sem eru samtök í Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu. Það var ekki rætt einu orði við Samtök eigenda sjávarjarða. Það var ekki rætt einu orði við Landssamtök landeigenda á milli umræðna.

Af því að hv. þm. Birgir Ármannsson hefur nú verið í samtali við þann sem hér stendur gæti hann kannski svarað þessu, staðfest þetta. (Gripið fram í.) Það vekur mikla undrun, svo vægt sé til orða tekið, að það sé sérstakt áhugamál ríkisstjórnarflokkanna, og þá sérstaklega hins ágæta Sjálfstæðisflokks, að þetta sé keyrt í gegn núna, áframhaldandi árásir á eignarrétt landeigenda og bænda, að það sé málið sem Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að setja hausinn undir sig í og segja: Við ætlum að klára þetta. Það kemur sömuleiðis á óvart að Framsóknarflokkurinn sé á þeirri vegferð. Það kemur auðvitað minna á óvart að sósíalistarnir í Vinstri grænum vilji koma krumlu ríkisins yfir sem flesta landskika og hluta sjávarjarða og mögulegt er. Áður en ég kem að efnisatriðum málsins, og ég veit að hv. þm. Birgir Ármannsson bíður eftir því, þá verð ég að klára þennan pólitíska hluta sem snýr að því að það er með algerum ólíkindum að þetta mál sé í slíkum forgangi hjá Sjálfstæðisflokknum að efnt sé til illinda á sama tíma og fulltrúar þess sama flokks óska eftir góðu veðri og samstarfi um öll önnur mál, að þá sé svona málum lætt í gegn. (BÁ: Það hefur verið hálft ár hér á þingi.) Það hefur ekki bætt málið að það hafi verið í hálft ár í þinginu, svo ég endursegi það sem hv. þingmaður kallar hér utan úr sal.

Mig langar til að koma inn á efnisatriðin en ég reiknaði með því að þau yrðu tekin til efnislegrar skoðunar og breytingar gerðar í meðförum nefndarinnar eftir atvikum. Í fyrsta lagi er það 5. gr. en óbyggðanefnd skilaði minnisblaði til nefndarinnar um hana. Það er að nokkru marki kostulegt að óbyggðanefnd sé sett í dómarasæti yfir eigin sýn á málið. En það er bara eitt atriði í þessu samhengi sem mig langar að nefna hér sérstaklega. Það snýr að því að mikil umræða hefur verið um að netlögin tryggi bara veiðirétt en ekki hinn efnislega massa á botni sjávar og þar undir.

Með leyfi forseta, segir í Jónsbók:

„En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó.“

Síðar segir:

„Sá maður,“ — landeigandi — „er land á, hann á þara allan og fugla alla, sela alla og rostunga …“

Allir þingmenn vita að þari og þang er ekki sami hluturinn og það er þannig að orðalagið „þari allur“ bendir til þess að eignarréttur landeiganda sé ekki takmarkaður við veiðiréttindi í tengslum við dýptarviðmið Jónsbókar. Þetta er atriði sem mér vitanlega var ekki fjallað um í nefndinni þó að fullt tilefni væri til. Þó að hægt sé að tilgreina æðimargt á þessum tímapunkti sem harða gagnrýni á 5. gr. langar mig sérstaklega að lesa upp úr inngangi umsagnar Landssamtaka landeigenda um frumvarpið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Landssamtökin telja þær breytingar sem lagðar eru til að stærstum hluta óþarfar og að tillögurnar hafi verið unnar fyrst og fremst í þeim pólitíska tilgangi að leitast við að auka völd og yfirráð opinbers valds, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, á kostnað eignarréttar landeigenda.“

Þetta er því miður það sem rammar þetta mál inn hvað pólitíkina í því varðar. Ég ítreka að það kemur verulega á óvart að það séu þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem leggja slíka ofuráherslu á að mál sem þetta klárist.

Það eru fleiri atriði þarna undir, til að mynda svokallaðir almenningar í stöðuvötnum. Þeir hafa verið álitnir í óskiptri sameign landeigenda sem eiga sína séreign eins og hún liggur fyrir og síðan hefur miðja vatns verið álitin óskipt sameign. Nú vill ríkissjóður, óbyggðanefnd, ná taki á þessum svæðum á einhvern hátt og ég sé ekki ástæðu til þess, eftir þá þrautagöngu sem landeigendur landið um kring hafa gengið hér undanfarna tvo áratugi í samskiptum sínum við óbyggðanefnd og ríkið, að æsa til óvinafagnaðar hvað þetta varðar. Og enn síður hvað varðar það atriði sem mikið hefur gagnrýnt að það verði heimild til að opna eldri mál ef kröfur hafa ekki verið settar fram með fullnægjandi hætti af hendi ríkisins. Hvers vegna í veröldinni telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ástæðu til að fara í þá vegferð? Ég skil, held ég, pólitísku ástæðurnar fyrir því að fulltrúar Vinstri grænna vilja fara í þá vegferð, ég held að ég að skilji það. En ég skil ekki af hverju Sjálfstæðismenn, þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, vilja fara í þá vegferð.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan að það væri að mörgu leyti skiljanlegt að menn sem hefðu þurft að eiga þessi samskipti frá upphafi starfa óbyggðanefndar væru hvekktir. Í því samhengi hræða sporin og það meira en lítið. Ég held að vel hefði farið á því að láta þetta mál annaðhvort sofna í allsherjar- og menntamálanefnd eða að gerðar hefðu verið á því verulegar breytingar frá upphaflega upplegginu. Hvorugt varð raunin og hér stöndum við í 3. umr. og ég fullyrði að 2. umr. hefði orðið verulega efnismeiri hefði ekki verið tilkynnt, af tilteknum fulltrúum stjórnarflokkanna í þessum ræðustól, að málið yrði tekið til sérstaklega góðrar yfirferðar á milli umræðna. Ef fulltrúar stjórnarflokkanna kannast ekki við það þá verða þeir að fara á netið og skoða eigin ræður, ég gerði það áðan. Það fór ekkert á milli mála að skilningur manna eftir þær yfirlýsingar hlaut að vera sá að líkur væru á því að málið kæmi til baka öðruvísi en nú liggur fyrir, þ.e. algerlega óbreytt á milli umræðna. Ekki hefur verið tekið tillit til neins af því sem hefur verið minnst á hvað áhyggjur varðar, hvorki til sjónarmiða Samtaka eigenda sjávarjarða né til sjónarmiða sem komu upp varðandi tekjur af landsvæðum sem þetta á við um. Að miklu leyti er þessi tilfinning áfram alltumlykjandi, tilfinning um sýndarsamráð sem núverandi ríkisstjórn virðist viðhafa og eflaust er það vegna þess hversu ólíkir flokkarnir eru innbyrðis. Það þykir nóg þegar ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru búnir að ná sátt eða niðurstöðu, ég ætla ekki að kalla það sátt, um það hvað hver þarf að gefa eftir í hverju máli. Ef sáttin í þessu máli er sú hjá ríkisstjórnarflokkunum að etja landeigendum, sérstaklega eigendum sjávarjarða landið um kring, út í þessa óvissuferð — ef ég man rétt, þá er reiknað með að nefndin verði lögð niður árið 2028 — ef það er sérstakur vilji þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarmanna, þá er ágætt að það liggi fyrir að það er vilji þeirra en ekki Miðflokksins.