150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[19:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð í belg varðandi þetta frumvarp um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram þrennt sem talið er vera megintilgangur með framlagningu þess: Í fyrsta lagi að greitt verði úr óvissu um eignarrétt á landi. Í öðru lagi að skýra verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Og loks að hnýta endahnút á störf nefndarinnar. Ég ætla ekki að gera athugasemd við allt þetta en sumt þó í minni ræðu.

Ég ætla að byrja á því að segja að þetta mál er það mál sem mest liggur á í dag. Við berjumst við heimsfaraldur og búið er að lýsa yfir neyðarstigi en við verðum að klára þetta mál. Í ljósi óvissu um eignarréttarlega stöðu á landinu öllu eru í frumvarpinu ákvæði um rýmkaðar heimildir ríkisins til að auka við kröfur sínar undir rekstri mála hjá óbyggðanefnd og að auki að lögbinda að óbyggðanefnd sé heimilt að fjalla um þau tilteknu svæði þar sem nefndin hefur í úrskurðum gert athugasemdir við kröfugerð ríkisins. Þetta var úr greinargerðinni að mestu leyti, að þetta sé tilgangurinn, þ.e. að rýmka heimildir ríkisins svo að það geti aukið við kröfur sínar. Og heimilt er að fjalla um svæði sem nú þegar hefur verið fjallað um. Þetta er það sem ég ætlaði kannski að tala mest um en þó eitthvað meira en það.

Þetta þýðir með öðrum orðum að heimilað sé að taka upp mál sem nefndin hefur lokið. Þarna er hins vegar verið að bæta við verkefnum í hendur nefndarinnar sem fer að hluta til gegn meginmarkmiðinu í frumvarpinu, þar sem segir að nú þurfi að ljúka störfum, og það verði að vera fyrirsjáanlegt 2024, eða hvenær það er, en samt er verið að bæta þarna við og opna á það að ríkið geti gert kröfu í land á svæðum sem nú þegar er lokið. Ég geri athugasemd við þetta, herra forseti. Þarna er ekki verið að reyna að flýta störfum nefndarinnar heldur að auka við. Það á sem sagt að taka upp landsvæði þar sem nefndin hefur þegar lokið við að úrskurða, í seinna tilvikinu til hagsbóta fyrir ríkið, sem hefur líkast til ekki gert kröfur sem hafa gengið nægilega langt og óbyggðanefnd fundið að því í úrskurðum sínum. Það er verið að stoppa upp í göt þar sem ríkið hefur einhverra hluta vegna ekki gengið nógu langt.

Um þetta atriði segja Landssamtök landeigenda í umsögn sinni:

„Landssamtökin telja þær breytingar sem lagðar eru til að stærstum hluta óþarfar og að tillögurnar hafi verið unnar fyrst og fremst í þeim pólitíska tilgangi að leitast við að auka völd og yfirráð opinbers valds þ.e. ríkis og sveitarfélaga á kostnað eignarréttar landeigenda. Enn sé verið að höggva í sama knérunn með því að láta ekki við það sitja að una við málalok á þeim svæðum þar sem óbyggðanefnd hefur lokið yfirferð sinni heldur að opna möguleika fyrir ríkisvaldið á því að halda áfram að vega að einstaklings eignarréttinum á svæðum sem farið hefur verið yfir og sú niðurstaða fengin að þau svæði séu ekki þjóðlendur. Á þeim svæðum virðist nú eiga að leita að einhverjum glufum sem verið hafa í kröfugerð ríkisins við meðferð þeirra og reyna að stoppa í þær, ríkinu til hagsbóta.“

Tillögurnar séu til þess fallnar að viðhalda óöryggi landeigenda gagnvart ríkinu og eyðileggja það traust sem þó hafði myndast. Loks nefna Landssamtök landeigenda að hagsmunir friðar séu ríkari en hagsmunir ríkisins af því að bæta úr mögulegum og minni háttar vanköntum og gloppum í kröfugerð ríkisins. Landssamtök landeigenda — og ég get að mörgu leyti tekið undir margt af því sem þau segja — segja að ríkið haldi áfram sinni þungu vegferð á hendur bændum og landeigendum um land allt. Taka á upp mál á svæðum sem við töldum að úrskurðum og málum væri lokið á ef ríkið sér einhverjar gloppur í því. Frumvarpið er að hluta til að opna á það, herra forseti, og ég er ekki sáttur við það. Ég held að við verðum að klára þetta, minnka umfangið. Klára þau svæði sem eftir eru, sleppa mörgu sem í frumvarpinu er og síðan að hætta þessari vegferð.

Hvað er þarna á ferðinni? Jú, ráð var fyrir því gert að ekki yrði unnt fyrir ríkið að lýsa kröfum að nýju í land sem hafði sætt meðferð hjá nefndinni. Það var ráðagerðin. Það væri sem sagt búið að ljúka því, að málum væri lokið. Menn töldu að meðferð mála væri þar með lokið fyrir nefndinni. Er verið að opna möguleika á því að slík mál verði opnuð á nýjan leik, ríkinu til hagsbóta? Ég get ég ekki betur séð, herra forseti, en þarna sé verið að fara gegn meginmarkmiði laganna sjálfra sem var, eins og ég nefndi í upphafi, að greitt yrði úr óvissu um eignarrétt á landi. Hér sýnist mér verið að auka á óvissuna á þeim svæðum sem óbyggðanefnd hefur lokið umfjöllun um. Greiða úr óvissu, en þarna verður aukaálag. Hvenær hættir þessi vegferð? Hvenær lýkur þessu? Öll svæðin verða sem sagt áfram um sinn í uppnámi, bæði þau sem eftir eru og þau sem lokið var. Óvissunni lýkur líklega ekki fyrr en óbyggðanefnd hefur formlega skellt í lás.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að nefndin taki til sérstakrar málsmeðferðar svæði í almenningum stöðuvatna og landsvæði utan strandlengju landsins. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þeim tveimur atriðum. Almenningar stöðuvatna eru í eigu þeirra landeigenda sem eiga land að viðkomandi vatni. Eftir hverju er ríkið að slægjast þarna? Mér er fyrirmunað, herra forseti, að sjá það. Um hvað snýst þetta? Um hvað snýst þessi málarekstur? Um hvað snýst hann?

Í lögum um lax- og silungsveiði, og víðar held ég, segir að almenningur í stöðuvatni sé:

„Sá hluti stöðuvatns sem er fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.“

Eða lengra út ef litið er til 2. kafla rekabálks Jónsbókar, eitthvað út á 7 m dýpi. Í lögum um lax- og silungsveiði, 6. gr., segir að fasteignaeigendum, er land eigi að stöðuvatni, sé einum heimil veiði í almenningi vatnsins og sé hún þeim öllum jafn heimil.

Eftir hverju er ríkið að slægjast þarna? Til hvaða málaferla á að stofna til þess að setja þetta í uppnám og hver er tilgangurinn? Ég næ því ekki. Ég las greinargerðina kannski ekki alveg frá orði til orðs en ég sá það hvergi hver nauðsyn á þessu væri. Ég sá ekki skýringar á því. Ég myndi gjarnan vilja að einhver vildi benda mér á það. Ég bað um það í 2. umr. og hef ekki enn fundið þessa skýringu eða heyrt hana og hef ég spurt nokkurra: Hverju er ríkið að seilast eftir í almenningum stöðuvatna? Halda menn að þetta séu eigendalaus svæði? Halda menn það? Hvað hangir á spýtunni? Er ekki á færi dómstóla að skera úr um það ef ágreiningur rís? Er ríkið að seilast eftir almenningum í stöðuvötnum uppi á hálendinu? Er það það sem hangir á spýtunni? En ég hef ekki þessi svör og ég bara spyr. Hver er ágreiningurinn, herra forseti? Á þá, eins og í öllum hinum málunum, að leggja sönnunarbyrðina, sönnunarbyrðina fyrir eignarréttinum, alfarið í hendur bænda? Svo hirðir ríkið rest. Ef menn ná ekki saman þá hirðir ríkið það. Og hversu rík á sönnunarbyrðin að vera, hversu ströng á hún að vera? Ég hef heyrt utan að mér að mönnum hafi fundist hún vera fullþröng og stundum ekki tekið mið af skjölum sem menn hafa lagt fram. Er það hlutverk ríkisins, herra forseti, að vefengja þannig eignarrétt manna og hirða af þeim eign sem þeir líklega eða hugsanlega eiga með slíkri lagasetningu og slíku offorsi með öllu valdi ríkisins á hendur þessum landeigendum?

Í frumvarpinu er ákveðið að óbyggðanefnd taki við landsvæði utan strandlengju landsins og virðist sem svo að þetta sé augljós framvinda málsins eins og orðalagið er. „Þegar nefndin tekur landsvæði utan strandlengju meginlandsins til meðferðar“, eins og stendur. Var þetta ekki ákveðið áður eða er þetta nýtt? Ég held að það sé ný uppástunga að fela óbyggðanefnd að vaða í þennan eignarrétt einnig, þ.e. að vefengja eignarrétt eigenda sjávarjarða á landinu sem að sjónum snýr.

Það er reyndar ofar mínum skilningi, herra forseti, að nefnd sem stofnuð var fyrir 22 árum, og hlaut nafnið óbyggðanefnd, skuli svo einnig ætlað þetta hlutverk. Í ákvæðum laganna er alltaf og ávallt talað um land en ég hef ekki rannsakað lögskýringargögn varðandi þetta svo að hugsanlega hefur verið gert ráð fyrir því að nefndin hafi einnig átt að taka þessi mál fyrir, þ.e. út í hafið. Ég leyfi mér að efast um það og ekkert í núverandi lagatexta bendir til þess. Ég leyfi mér að fullyrða að ef sú hefði verið upphaflega áætlunin hefði það verið tekið sérstaklega fram og einnig hvað varðar almenning stöðuvatna; það hafði verið tekið sérstaklega fram. Þarna er því verið, að mínu mati, eftir yfirsýn yfir málið núna, að færa út kvíarnar, að víkka út starfsvið nefndarinnar. Það er verið að auka við möguleikana á landi. Þarna er verið að fara út í almenninga stöðuvatna og út í sker og hólma, dranga og eyjar eins og mögulegt er. Það fer auðvitað gegn meginmarkmiðunum um að ljúka þessum störfum sem fyrst. Óbyggðanefnd var stofnuð um 1998 og ég man að hún átti að ljúka störfum nokkrum árum síðar, 2008 held ég að hafi verið markmiðið, jafnvel fyrr. Síðan var það framlengt til 2015. Nú er árið 2020 og nú á þessu að ljúka 2024 og við erum orðin ansi langeyg eftir því að því fari senn að ljúka. Ég held að ég geti tekið undir margt af því sem landeigendur hafa sagt, þeir hafa beðið eftir því óþreyjufullir að þeirri vegferð yrði fljótlega lokið.

Það má vera ljóst að hér er verið að bæta verkefnum við nefndina. Varðandi þetta hugtak „land“ þá ætla ég að lesa hér upp af minnisblaði óbyggðanefndar sem barst nefndinni.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Gildissvið þjóðlendulaga er allt land innan íslenskrar lögsögu. Allt land er samkvæmt þjóðlendulögum annaðhvort eignarland eða þjóðlenda og hlutverk óbyggðanefndar er að greina þar á milli. Hugtakið „landsvæði utan strandlengju meginlandsins“ í 5. gr. frumvarpsins vísar til eyja, skerja og annarra landfræðilega eininga umhverfis landið, samanber greinargerð með frumvarpinu. Vegna meðferðar á þjóðlendumálum utan strandlengju meginlandsins er nauðsynlegt að greina hvað sé land og hvar því landi sem fjalla ber um sleppir.“

Já, hvað er land? Nú er áríðandi að svara því.

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hafsbotn innan 115 m netlaga tilheyrir hins vegar aðliggjandi landi og fellur því undir gildissvið þjóðlendulaga …“

Þarna er land ekkert lengur land. Þetta er undir sjávarmáli en þeir ætla samt að úrskurða um það. Það á sem sagt að taka til úrskurðar í nefndinni land eins og þeir nefna og virðast kalla sem er alla jafna og alltaf undir yfirborði sjávar.

Nú er tími minn að verða búinn og ég er alls ekki búinn með ræðuna og er margt merkilegt eftir. Ég er að benda á það hér í lokin, þegar ég er að lesa þetta um landið, að gripið virðist til allra ráða þegar á að skýra hvað heyrir undir óbyggðanefnd. Það er það sem ég er að reyna að skýra út í ræðu minni.