150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[20:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en ég verð þó að segja, eins og komið hefur fram, að það vekur undrun mína að svona mikil áhersla skuli vera lögð á þetta mál þegar þingið þarf að takast á við þá erfiðleika sem steðja að okkur vegna kórónuveirunnar. Ég vil sérstaklega koma aðeins inn á það sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan, í andsvari held ég, þegar hann talaði um að tilgangur þess frumvarps sem við ræðum væri ekki að breyta eignarréttarlegri stöðu. En það er nákvæmlega það sem gerðist og hefur gerst í þessum þjóðlendumálum. Af hálfu ríkisvaldsins hefur verið gerð tilraun til að breyta eignarréttarlegri stöðu einstaklinga þegar kemur að þinglýstum eignum og jarðeignum sem aldrei var lagt upp með í upphafi. Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál þegar ekki er hægt að treysta þinglýstum eignarheimildum að jarðeignum þegar ríkisvaldið er annars vegar. Í þessu kristallast svolítið þessi umræða, a.m.k. af minni hálfu, að nú á að fara að leggja í þá vegferð að útvíkka hlutverk óbyggðanefndar og snúa sér að sjávarjörðunum eins og ég hef rakið og fleiri í sínum málflutningi. Í mínum huga er því mikið áhyggjuefni að haldið verði áfram á sömu braut, þ.e. að þegar kemur að kröfugerð ríkisins verði gerðar, eins og hefur verið, ýtrustu kröfur af hálfu ríkisins og þá skipti það ekki neinu máli hvort um sé að ræða þinglýstar eignir eða þinglýst landamerki þegar kemur að jarðeignum, að það sé bara haldið áfram á sömu braut og menn þurfi að fara að verja sig í því sem þeir hafa talið að væri haldfast, þ.e. þinglýst skjöl um að viðkomandi sé eigandi viðkomandi jarðar og að landamerki séu skýr. Þetta hefur því miður verið við lýði í þau 22 ár sem nefndin hefur verið starfrækt og að sjálfsögðu hræða sporin í þessum efnum þegar á að fara að útvíkka hlutverk nefndarinnar með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Auk þess er ljóst að það á að fara að gefa grænt ljós á að opna mál sem hefur verið lokið með úrskurði eða með öðrum hætti á hinum ýmsu landsvæðum. Það vekur ótta meðal þeirra sem hafa þurft að standa í þessum málaferlum í langan tíma og haft mikil áhrif á þá einstaklinga sem þar eiga hlut að máli, bæði fjárhagslega vegna þess að það hefði verið erfitt að selja jarðir sem eru undir það settar að ríkið er að seilast eftir réttindunum þar, í sumum tilfellum þinglýstum réttindum. Þetta eru allt lögmætar og réttar áhyggjur sem fólk hefur af þessu máli og enn og aftur skilur maður ekki hvers vegna lögð er svona mikil áhersla á að klára þetta mál. Það er manni eiginlega óskiljanlegt. Ég sé ekki að það séu ríkir hagsmunir fyrir því að klára þetta mál hér og nú. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að maður veltir fyrir sér hvers vegna lögð er svona gríðarleg áhersla á þetta mál af hálfu stjórnarflokkanna, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Nú vita menn og hafa fengið að vita í gegnum árin að þessi mál hafa verið keyrð áfram í ósætti við landeigendur. Upphaflega var lagt upp með að sátt ríkti um þessi mál og hagsmunasamtök bænda höfðu þá trú í upphafi að þetta væri af hinu góða. Auðvitað eru allir á því að það þurfi að skilgreina landsvæði á hálendinu og þar sem einskis manns land er, en þetta hefur því miður farið algjörlega úr böndunum, herra forseti, og þess vegna hræða sporin í þessum efnum. Við í Miðflokknum getum ekki stutt þetta mál.