150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þetta eru fordæmalausar aðstæður. Í björgunarsveitunum nálgast menn verkefni sem mikil óvissa er um með því að nota oft þau orð að tímabært sé að taka fram stóru sleggjuna. Þá bregðast menn við með öllu því sem til er í vopnabúrinu til að nálgast þann vettvang sem þarf að sækja að úr ýmsum áttum með þeim leiðum sem mögulegar eru. Við þessar aðstæður er tímabært að taka fram stóru sleggjuna í samfélaginu og það er í raun nauðsynlegt. Það er mikilvægt að horfa til margra þátta. Við horfum til brýnna verkefna þar sem þarf að bregðast við gagnvart atvinnulífi, samfélaginu öllu og launafólki, tryggja að áfallið verði sem minnst, að fyrirtæki nái að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og að við komumst í gegnum þá tímabundnu erfiðleika sem veiran veldur.

Meira þarf þó til. Það þarf að horfa til lengri tíma. Það er mikilvægt fyrir okkur að taka þessari stöðu sem áminningu um það hversu mikilvægt það er fyrir fámenna þjóð í stóru landi sem byggir á ríkum náttúruauðlindum að horfa til fleiri þátta í uppbyggingu þess sem efnahagskerfi okkar byggir á. Við eigum einstök tækifæri í þeim efnum. Núna er tímabært fyrir okkur að horfa til þess hvernig við getum aukið og örvað fjárfestingu atvinnulífsins á þeim sviðum þar sem áhugi og möguleikar eru til staðar. Við þurfum að horfa til þess að víkja sterku og erfiðu regluverki til hliðar um stund. Við þurfum að setja það í algjöran forgang að þeir sem geta farið í fjárfestingar og byggt upp atvinnulíf geti það, ég nefni t.d. laxeldi plús allt það sem hið opinbera getur gert í innviðaframkvæmdum, en sérstaklega þurfum við að horfa til atvinnulífsins, lagningar vega, raflagna, uppbyggingar laxeldis og þeirra hvata sem verða til þess að auka bjartsýni og örva fjárfestingu í atvinnulífinu þannig að við komum með sem öflugasta viðspyrnu út úr þessum erfiðleikum.