150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Nú ber nýrra við. Hér hafa verið fluttar einar tíu eða ellefu ræður og ég get tekið undir eiginlega allt sem allir ræðumenn hafa sagt hér að framan. Það gerist ekki á hverjum degi. Ég verð þó að segja af þessu tilefni að það sem af er undanfarna daga hefur starfið í þinginu gengið með ágætum. Þótt auðvitað hafi komið upp álitamál um hitt og þetta hafa menn reynt að leysa úr því þannig að allir geti verið þokkalega sáttir við. Það er mikilvægt að það verði unnið þannig áfram af hálfu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu að hægt sé að halda frið um þau skref sem við þurfum að stíga, eins og kostur er. Það er ekki útilokað að skoðanir kunni að vera skiptar um einstaka aðgerðir sem gripið er til og á einhverjum tímapunkti þarf hugsanlega að höggva á hnúta í því sambandi. Það er ekki sjálfgefið að við verðum öll sammála um niðurstöðuna í öllum málum en meðan við getum rætt hlutina málefnalega, meðan við getum unnið með vönduðum hætti að úrlausn þeirra viðfangsefna sem að okkur snúa er gríðarlega mikilvægt að við vinnum málin þannig að allir hafi sömu sýn á markmiðin þó að okkur kunni að greina með einhverjum hætti á um leiðir í einstökum tilvikum.

Störf þingsins verða auðvitað undirlögð vegna þeirra viðfangsefna sem við þurfum að glíma við. Ég varð var við það úti í bæ að þegar sagt var að starfsáætlun þingsins hefði verið tekin úr sambandi skildu sumir það þannig að þingið væri farið heim og ætlaði ekkert að gera. Það er misskilningur. Þetta þýðir að hin reglubundnu störf verða með nýjum og ólíkum hætti. En við tökumst á við þau viðfangsefni sem þingið þarf að glíma við í þessu ástandi.