150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vildi aðeins koma inn í þessa umræðu varðandi börnin, fjölskyldurnar og allt það. Við vorum lengi vel að reyna að finna leið til þess að taka utan um þennan hóp og hafa hann inni. Við fengum heimsókn frá fulltrúum Þroskahjálpar. Við fengum ábendingar frá Geðhjálp. Það er verið að loka deildum þar sem þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða dvelja langdvölum og til skemmri tíma, sem fara núna heim. Það er verið að fækka rúmum á öldrunarstofnunum þannig að aldraðir eru að fara heim, þurfa sólarhringsumönnun. Við byrjuðum á fjölskyldum barna en svo þegar við áttuðum okkur á því að þetta er víðtækara vandamál þá ræddum við í nefndinni við hæstv. félagsmálaráðherra og okkur var tjáð að þar eigi sér nú þegar stað vinna til að skoða hvað er hægt að gera í þessu. Hún er farin af stað með fjölda hagsmunaaðila, með skólasamfélaginu, ég veit að sveitarfélögin eru í þessu samstarfi og ég veit að fulltrúar frá Þroskahjálp og Geðhjálp og fleiri eru þar inni og fjöldinn allur af hagsmunaaðilum. Þannig að þetta er stærri hópur en svo að við gætum gripið hann í þessu tiltekna máli. Það átti bara að varða sóttkvína og við urðum að þrengja sviðið aftur og fjalla um það út frá því. Ég vildi bara koma því að. Þetta er ekki spurning, þetta er bara upplýsingagjöf.