150. löggjafarþing — 80. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þar sem við erum að greiða atkvæði um þetta frumvarp í endanlegri útgáfu vil ég fagna því að við séum hér að samþykkja þetta og að um það sé full samstaða í þinginu. Með þeim breytingum sem við höfum gert á þessu frumvarpi erum við að stíga mjög stórt skref til að vernda hag fólks og fyrirtækja, sérstaklega þeirra tekjulægri, í gegnum næstu vikur og mánuði. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum að tryggja stöðu sérstaklega tekjulægsta hópsins þarna og á sama tíma að veita fyrirtækjunum möguleika á að lækka starfshlutfall niður í 25%. Ég hvet fyrirtæki og launþega til að nýta sér þetta úrræði eftir bestu getu í stað þess að enda ráðningarsamband og fara í uppsagnir. Við ætlum að fara saman í gegnum þetta og það er gríðarlega mikilvægt að sem flestir nýti sér úrræðið.

Að lokum vil ég þakka velferðarnefnd fyrir vinnslu málsins og hvernig hún hefur unnið þetta í samstarfi sem ég og ráðuneytið höfum átt við nefndina og ég þakka fyrir þá samstöðu sem er að myndast í þingsalnum hér.