150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[15:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samráðið var talað við BHM, BSRB, ASÍ, samband kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna og fleiri. Fram komu einhverjar athugasemdir sem við urðum við, m.a. í greinargerð. Það er mjög mikilvægt að haft sé gott samráð við þessa aðila og það reynir á sérstakar stéttir umfram aðrar en samt sem áður getur líka reynt á allt aðrar stéttir en eru venjulega í framlínunni en þurfa að færa sig til, vera tilbúnar að sinna eftirliti varðandi snjóflóðavarnir þegar hættustund er og enginn er til að sinna því eða er í sóttkví eða til að sinna einhverju öðru sem þarf að sinna til að halda uppi ákveðinni almannaþjónustu. Stéttirnar geta verið mjög fjölbreyttar.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði mig um í bæði fyrra og síðara andsvari reyndi ég að útskýra að þessi stig eru ekki skilgreind í löggjöfinni. Ég er búin að ítreka að hún þarfnast uppfærslu en ekki gafst tími til að klára það með þessari breytingu einni. Þess vegna er það skýrt í greinargerð að á hættustundu þýðir í þessu frumvarpi neyðarstig almannavarna sem er það stig sem við miðum við í dag. Auðvitað væri óskandi að við gætum breytt í kjölfarið öllum almannavarnalögunum og gert þau skýrari og í takt við það sem við sjáum fram á en það er framtíðarverkefni og ég mun einhenda mér í það eins og alla þá almannavarnavinnu sem ég hef nú þegar sett af stað og setti af stað áður en öll þessi óvissustig komu yfir okkur. Sú vinna hefur örlítið tafist vegna þessa og sérstaklega vegna álagsins á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra undanfarna mánuði. Ég verð að nýta tækifærið og hrósa henni fyrir hvernig hún hefur unnið síðustu mánuði. Almannavarnir eru auðvitað við öll en það er fyrst og fremst samráð allra aðila sem þurfa að koma að málum eins og þessum.