150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

forgangsröðun í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[10:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vona að það verði einhver umhverfisvæn og femínísk verkefni tilbúin þegar verður farið í næsta fjárfestingarátak.

Hæstv. ráðherra hefur lýst sig fylgjandi velsældarhagkerfinu. Ég man að ég fagnaði mjög yfirlýsingu ráðherrans á sínum tíma vegna þess að í velsældarhagkerfinu mælum við lífsgæði á mun nákvæmari hátt en við gerum með hagvexti. Við mælum hamingju, sjálfbærni, menntun, hugvit og velsæld fólksins í landinu í stað þess að einblína á meðaltalsvöxt tilbúins hagkerfis. Kollegi hæstv. ráðherra, Jacinda Ardern, hefur tileinkað 4% fjárlaga Nýja-Sjálands í velsældarfjárlög með það að markmiði að byggja upp sjálfbært hagkerfi með lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Í Kanada vinnur fjármálaráðherra að beiðni forsætisráðherra þar að því að innleiða lífsgæðavísa í ákvörðunartöku og fjárhagsáætlunargerð ríkisstjórnarinnar.

Forseti. Ég get ekki betur séð en að fyrsti aðgerðapakki íslensku ríkisstjórnarinnar hunsi velsældarhagkerfið þó að hér hafi verið um að ræða kjörið tækifæri til að efla fögur fyrirheit hæstv. ráðherra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún sýna að henni sé alvara með uppbyggingu velsældarhagkerfisins með næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar?