150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að tekjuviðmiðið vegna barnabótaaukans var gallað í frumvarpinu. Það var hins vegar miklu hærra en það sem stjórnarmeirihlutinn leggur til. Miðað við þá niðurstöðu hefði aðeins kostað 130 milljónir að sleppa tekjutengingunni og láta alla fá 40.000 kr. Ég vona að engum blandist hugur um að ég er mjög ósátt við að miðað sé að við að samanlagðar mánaðartekjur sem fá hærri barnabótaaukann miðað við árið 2019 séu rétt undir miðgildi og langt undir meðallaunum. Það er miðað við 625.000 kr., ef báðir aðilar eru með jafn há mánaðarlaun, en meðallaun voru 770.000 kr. á árinu 2019. Mér finnst prinsippið að baki barnabótaauka frábær hugmynd og ég hrósa þeim sem datt í hug að koma með hann inn í frumvarpið. Það er nefnilega góð hugmynd að koma með upphæðina og leggja til allra barnafjölskyldna í landinu. Við getum ekki fundið út hver staða þess fólks er í dag, hvort það er fyrir ofan eða neðan þetta fáránlega lága viðmið sem stjórnarmeirihlutinn hefur sett inn. Til að vera viss um að við gerum meira en minna, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leggur áherslu á, (Forseti hringir.) til að vera viss um að ekkert barn yrði út undan, áttum við auðvitað að setja sömu upphæð til allra barnafjölskyldna í landinu. Það hefði verið virkilega réttlátt og sanngjarnt.