150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er með tvær spurningar. Hér er sagt að vel hafi verið haldið á málum undanfarin ár en mikið hefur verið minnst á innviðaskuld sem við höfum haft ofan á okkur. Það er ekki skrýtið þegar það er hægt að moka fullt af peningum í þá holu sem við stöndum frammi fyrir að byrjað sé á steypuverkefnunum, þeirri innviðaskuld sem við erum í, í staðinn fyrir mun uppbyggilegri verkefni til framtíðar. Frakkland var t.d. að tilkynna um 4 milljarða framlög í nýsköpun sem eru dálítið hærri en sá pakki sem kom frá ríkisstjórninni þrátt fyrir viðbæturnar sem nefndin gerir. Mér finnst þessi forgangsröðun pínu undarleg. Ef við ætlum að grípa atvinnuleysi sem er vel fyrirsjáanlegt reynum við vissulega að koma í veg fyrir að það verði atvinnuleysi til að byrja með en við sjáum þróunina eins og hún er og leiðin til að grípa nær einmitt með nýsköpun, að skapa ný störf og reyna að fara ekki aftur í sama gírinn og áður.

Ég klóra mér rosalega í hausnum yfir öðru atriði. Ég átta mig ekki alveg á forgangsröðinni. Í greinargerð frumvarpsins segir að verið sé að setja framlög til verkefna sem hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Ég skil ekki af hverju ekki má byrja á verkefnum sem hefjast bara strax í sumar þó að þau klárist ekki fyrir 1. apríl 2021. Væntanlega erum við þá að seinka um heilt ár þeim verkefnum sem myndu skapa okkur mörg tækifæri og gætu byrjað núna strax. Þetta er augljósasti gallinn á þeim framkvæmdum sem er verið að leggja til hérna.