150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir mjög góðar spurningar og fjölmargar. Ég reyndi að koma að einhverju í framsögu en eiginlega allar þessar spurningar komu fyrir í umfjöllun nefndarinnar. Fyrst vil ég segja um það sem snýr að félagslegu öryggi og félagslegum stuðningi að einhugur var í nefndinni um að koma til móts við þann hóp með örorkulífeyrisbætur sem hvað lægstar hefur tekjurnar, við þessar aðstæður þegar kemur að félagslegu öryggi. Það var einhugur um það.

Varðandi eldri borgara fengum við Landssamband eldri borgara til okkar. Það leggur ofuráherslu á að við samþykkjum hratt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Það er nefnd sem skilaði fínni vinnu um að taka utan um lægstu tekjutíundina þar. Önnur nefnd er að vinna að viðlíka frumvarpi fyrir næstu tvær. Ég hvet hv. þingmann og okkur öll til að taka utan um það með því að samþykkja þau frumvörp og vinna þau í þinginu.

Varðandi barnabæturnar var mikil umræða um útfærslu barnabóta og ég met að málamiðlunarleið hafi verið farin, ágætislending í því máli. Þetta eru svo ótrúlegar aðstæður sem við horfumst í augu við, að um stöðuna hjá fólki sem var jafnvel með ágætistekjur á síðasta ári samkvæmt framtölum vitum við ekkert í dag, þ.e. hjá fjölmörgum hópum, og hvaða tekjur á að miða við. Það var horft til þess að það yrði einföldun á aðgerðunum. Ég get tekið undir að almennt viljum við að bætur fari til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. (Forseti hringir.) Ég verð að koma að vöxtunum og bankaskattinum í síðara andsvari.