150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ítreka þakkir fyrir spurningar hans. Varðandi það að meta umfang aðgerða í samanburði við önnur ríki held ég að við verðum aðeins að anda með nefinu. Verkefnið er vandasamt, við þurfum að horfast í augu við hvað er miðað við, bera saman aðgerðirnar og á hvaða mælikvarða, hvort það er t.d. umfang fjárlaganna eða verg landsframleiðsla. Ég held að við eigum eftir að fara nákvæmar í þá vinnu. Ég vonast til að sjá fjárauka fljótlega, ég er ekkert viss um að allir verði afskaplega ánægðir með að ég segi þetta hér en ég vil sjá hann. Fram komu mjög góðar hugmyndir sem okkur vannst ekki tími til að greina hvort myndu falla akkúrat að þingsályktunartillögunni og fjárfestingaráætluninni eins og þar er lagt upp með og þeim viðmiðum. Endurgreiðsluþakið (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur til að mynda talað um er hluti af nýsköpun, rannsóknum og þróun og við eigum í framhaldinu að skoða það og kalla eftir upplýsingum um hvaða áhrif það hefur og freista þess að sjá hvort ekki sé skynsamlegt að fara í það á þessum tímapunkti.