150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um þingsályktunartillögu um fjárfestingarátak og fjáraukalagafrumvarp, um heimildir til að mæta m.a. útfærðu fjárfestingarátaki. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir prýðisræðu og vil árétta að ég er sammála kjarnanum sem hv. þingmaður fór í gegnum í lok ræðu sinnar, hvernig við bregðumst við í svona áfalli til að verja þá sem verða fyrir mestum skaða og reyna hratt að ná utan um þá. Eins og birtist í fjárfestingarátakinu munum við þegar við höfum kraft fara í viðspyrnuna og meðan við erum að komast í gegnum heilbrigðisþáttinn, sem er í forgrunni, og þegar öll þjóðin er í samkomubanni þá hægist á öllu. Þar er þessi hefðbundna hringrás, heimili og fyrirtæki, en þar er auðvitað ofuráhersla á að verja fyrirtækin og störfin af því að það er sú einfalda efnahagshringrás sem við þurfum að passa upp á hér tímabundið og tengist kjarnanum sem kemur einmitt fram í nefndaráliti því sem hv. þingmaður fór yfir.

Varðandi heilbrigðiskerfið tek ég bara undir með hv. þingmanni, við eigum að taka þetta reglulega saman, halda utan um þann kostnað sem af því hlýst og stjórnvöld eða framkvæmdarvaldið að sækja reglulega til þingsins eftir heimildum um leið og við greiðum úr óvissunni þar að lútandi.

Varðandi nýsköpunina tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég minni á það sem samflokksmaður minn, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, segir gjarnan, af því að hv. þingmaður kom inn á steypu, steypu, steypu, malbik og áherslurnar þar, að samgöngur eru oft grundvöllur þess að nýtingin verði á nýsköpuninni. (Forseti hringir.) Svo vil ég bara í lokin þakka hv. þingmanni sterkt og jákvætt hugarfar og samvinnu í nefndarstarfinu.