150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Forseti. Við greiðum atkvæði um flókið lagafrumvarp sem á sér varla hliðstæðu. Það er sérlega ánægjulegt og mikilvægt að náðst hafi samstaða um málið í öllum megindráttum. Þegar eru teikn á lofti um að frekari inngrip þurfi að koma til og þá verður mikilvægt að byggja á þeirri samstöðu sem þjóðin hefur sýnt sem og þingið.

Bann við arðgreiðslum til þeirra fyrirtækja sem njóta stuðnings ríkisins vegna aðgerðanna eru mikilvæg skilaboð til samfélagsins. Hér á ekki að ríkisvæða tapið en einkavæða gróðann.

Með barnabótaauka kemur ríkið til móts við barnafjölskyldur sem hafa margar þurft að leggja mikið á sig vegna aðgerða og inngripa vegna faraldursins.

Sérstök eingreiðsla til öryrkja skiptir líka máli og þar munar sérstaklega um að allar greiðslurnar eru skatta- og skerðingarlausar. Þá er til marks um þá hreyfingu sem er á málum að leiðrétting vegna hlutabóta til fiskvinnslustarfsfólks kemur hér inn og er það vel.

Með þessum aðgerðum sendum við mikilvæg skilaboð úr þinginu. Þingið og þjóðin þurfa að standa saman til að standa af sér þetta áhlaup. Stjórnvöld munu gera það sem þarf.