150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[19:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hér virðist vera að myndast mikil samstaða um að samþykkja þessar aðgerðir allar og reyna að veita blóði út í atvinnulífið sem var megintilgangurinn. Þrátt fyrir að ég sé alls ekki sammála öllum þeim tillögum sem hér birtast mun ég samþykkja þetta frumvarp. Ég hefði haldið að við ættum fyrst og fremst að einbeita okkur að því að veita auknum krafti í atvinnulífið og hugsanlega koma til móts við þá sem hafa sætt skerðingum á undanförnum árum og áratugum og rétta þeirra hlut í þessu ástandi. Ég er andsnúinn mörgum þessara tillagna en mun samþykkja þær sökum þess að pakkinn í heild sinni er að mörgu leyti ágætur. Margar þessara tillagna eru mjög sérhæfðar og margar þeirra renna að ósekju til ýmissa ríkisstofnana sem ég hefði haldið að þyrfti virkilega að sýna aðhald á þessum tímum.