150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[19:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vek sérstaklega athygli á því að í þessari breytingartillögu er lagt til af minni hlutanum, þ.e. stjórnarandstöðunni, að greitt verði sérstakt álag til heilbrigðisstarfsmanna sem sinna nú gríðarlega mikilvægu starfi fyrir samfélagið allt í framlínunni við að annast sjúklinga smitað af Covid-19 veikinni og veita þeim heilbrigðisþjónustu við mjög erfiðar aðstæður. Gert er ráð fyrir sérstöku framlagi upp á 200.000 kr. fyrir þetta starfsfólk sem hefur unnið ómetanlegt starf sem við þökkum að sjálfsögðu mikið fyrir.

Ég vil auk þess nota tækifærið og hvetja ríkisstjórnina til að ljúka samningum við þessar mikilvægu stéttir, heilbrigðisstéttir eins og hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og sjúkraliða, sem hafa unnið ómetanlegt starf eins og ég sagði. Það er forkastanlegt, herra forseti, að ekki skuli vera búið að semja við þessar stéttir sem hafa verið með lausa samninga í allt að ár og þurfa nú að sinna þessu gríðarlega mikilvæga starfi.

Ég segi já.