150. löggjafarþing — 85. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[20:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn styður þetta frumvarp. Við höfum sýnt mikinn samstarfsvilja og komið með tillögur sem við vonuðumst til að ríkisstjórnin myndi styðja vegna þess að ekki er gengið nógu langt í þessu frumvarpi. Við þurfum að leggja verulega í fjárveitingar þegar kemur að því að endurreisa atvinnulífið sem því miður blasir við að er í miklum erfiðleikum. Við urðum vitni að því að stjórnarliðar sem hafa mikið talað fyrir samstarfi og samvinnu á þessum erfiðu tímum eru ekki tilbúnir að styðja þær góðu tillögur sem við höfum lagt fram hér til að bæta meira í. Ég minni á að þær tillögur sem við höfum lagt fram eru atvinnuskapandi, það er það sem skiptir verulegu máli, og þær halda einnig utan um þá hópa sem eiga erfitt í samfélaginu vegna þessa. Það eru mikil vonbrigði, herra forseti, að tillögur okkar hafi ekki verið studdar en við sýnum samstarfsvilja með því að styðja þessar tillögur þótt þær gangi ekki nógu langt að okkar dómi.