150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

staðan á Suðurnesjum.

[10:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég deili þeirri hugsun með honum að þetta er gríðarlegt verkefni og yfirgripsmikið, en af því að hann talaði um að alltaf væri hægt að tína til verkefni á einhvern lista er það akkúrat það sem hæstv. ríkisstjórn gerði og ég var að gagnrýna, að listinn bæri ekki endilega merki þessa mikla vanda sem Suðurnesin eru að glíma við.

Mikil eftirspurn, gríðarlegt álag auk kröfu um sérfræðiþekkingu á vinnumarkaði er gjarnan uppskrift að góðum launum en er það ekki alltaf, því miður. Mig langar að ræða hér um hjúkrunarfræðinga sem stjórnvöld hafa ekki klárað samninga við frá árinu 2014 heldur beitt lagasetningu og gerðardómi og síðan, að því er virðist, sýnt nokkurt áhugaleysi um lausn síðasta árið. Nú um mánaðamótin þegar álag á þessar stéttir er í hæstu hæðum og starf þeirra í þokkabót hættulegra en nokkru sinni fyrr er kveðjan til þeirra umtalsverð lækkun í launum þar sem aðhaldskröfu stjórnvalda á Landspítala var mætt með því að fella niður greiðslu vaktaálags. Hæstv. ráðherra fór yfir áðan að þetta væri óheppilegt, en þetta var ekki óheppilegt — þetta er ævintýralegt rugl, herra forseti.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvar í forgangsröðuninni (Forseti hringir.) í ráðstöfun ríkisfjármunanna er að laga þessi mál? Hversu lengi mega hjúkrunarfræðingar búist við því að þurfa að bíða? (Forseti hringir.) Óttast hæstv. fjármálaráðherra ekki afleiðingarnar af því ef þetta mál verður ekki klárað með sóma? Loksins þetta: Er þetta í alvöru staða sem hæstv. ráðherra er sáttur við?