150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

gagnsæi brúarlána.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að gagnsæi um þessa hluti skipti gríðarlega miklu máli og ég myndi persónulega fordæma þá sem enga ástæðu hafa, hafa ekki orðið fyrir tekjumissi en ætla sér að treysta á þessi úrræði. Þeir eru að taka frá hinum sem eru í raunverulegri þörf. Það er svo einfalt. Langbest væri ef við gætum haft sem allra mest gagnsæi og skýrslugjöf um þessa þætti. En mér finnst við vera komin dálítið fram úr okkur sjálfum þegar við erum farin að hafa áhyggjur af því hvernig uppgjörinu við þetta allt saman verður háttað. Núna er tími til að spyrja: Hvaða úrræði munu koma að gagni? Hvernig getum við forðað tjóninu? Það er tíminn í dag.

Vissulega skiptir máli að aðgerðirnar séu smíðaðar þannig að það sé tryggt að við fáum allar upplýsingar og gagnsæi og að meginreglur gildi sem og eftirlit. Þetta er allt saman mjög mikilvægt en aðalatriðið hlýtur að vera hvort við erum með aðgerðum okkar að gera eitthvert gagn, hvort þetta gagnist, hvort við björgum nægilega mörgum störfum. Ég ætla bara að lýsa þeirri skoðun minni að þær aðgerðir sem við höfum gripið til eru að öllum líkindum ekki nóg. Við munum þurfa að stíga stærra skref inn í þetta. Síðast í vikunni var verið að framlengja samkomubannið þannig að krísan dregst á langinn lengur en við (Forseti hringir.) vonuðumst til að yrði raunin og það kallar á enn frekari skref.