150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[15:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Markmiðið með því er að lágmarka áhrif samkomubanns og fjarlægðartakmarkana á starfsemi ýmissa stofnana á málefnasviði dómsmálaráðuneytisins, ekki síst dómstóla og sýslumanna svo þær megi sem best sinna lögbundnum skyldum sínum á meðan faraldurinn varir. Í því augnamiði eru lagðar til lagabreytingar sem flestar eiga það sammerkt að veita víðtækari heimildir til notkunar fjarfundabúnaðar og annarra rafrænna lausna við meðferð mála. Sumum þessara fyrirhuguðu breytinga er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir rafrænni málsmeðferð og verða varanlegar en aðrar munu einungis eiga við á meðan samfélagslegar takmarkanir eru enn í gildi.

Markmiðið er að einfalda kerfið fyrir almenning en engin útgjöld fylgja þessum breytingum. Þær eru allar gerðar til að draga úr neikvæðum áhrifum af völdum kórónuveirufaraldursins á framkvæmd lögbundinna verkefna. Hægt er að líta til breytinga sem þessara sem jákvæðra áhrifa af Covid-19. Sú reynsla sem kemst á hin ýmsu fjarfundaform og rafræn samskipti verður vonandi til þess að opinber stjórnsýsla og þau samskipti færist hraðar yfir á rafrænt form. Um tíma hefur staðið yfir mikil vinna um stafræna stjórnsýslu sem þetta fellur vel að og er sú vinna í fullum gangi og af enn meiri krafti nú en áður.

Gróflega má flokka þær breytingar sem lagðar eru til í þrennt og mun ég gera grein fyrir þeim helstu í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi er lagt til að við lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála bætist bráðabirgðaákvæði sem heimilar dómara að ákveða að þinghald og skýrslugjöf fari fram í gegnum fjarfundabúnað enda heyri allir þau orðaskipti sem þar fari fram. Í sakamálum er þó gerður sá áskilnaður að skýrslugjöf ákærða, sakbornings og lykilvitna fari fram í hljóði og mynd. Sambærileg bráðabirgðaheimild er síðan lögð til varðandi skýrslutöku lögreglu af sakborningi og vitnum. Þá er jafnframt lagt til að skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem leggja skal fram vegna reksturs máls teljist afhent berist þau dómstól innan tiltekins frests enda séu þau í kjölfarið og án ástæðulauss dráttar send dómstól með hefðbundnum hætti.

Í öðru lagi eru lagðar til ýmsar breytingar á löggjöf sem lýtur að starfsemi sýslumanna á sviði fullnusturéttarfarsins. Það má nefna löggjöf er varðar aðför, nauðungarsölu, kyrrsetningu, skipti dánarbúa o.s.frv. Með þessum breytingum er sýslumönnum veitt heimild til að halda fyrirtökur í gegnum síma eða fjarfundabúnað enda heyri allir þau orðaskipti sem þar fara fram. Þá verði sýslumönnum einnig heimilt til bráðabirgða að bjóða upp á rafræna málsmeðferð samkvæmt IX. kafla stjórnsýslulaga en sá kafli gildir í dag ekki um verkefni sýslumanna á sviði fullnusturéttarfars.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem varða starfsemi sýslumanna og fleiri stofnana á öðrum réttarsviðum. Þá má nefna lög um ættleiðingar, barnalög, lög um útlendinga, lög um dánarvottorð og áfengisleyfi, en þær breytingar eiga það sammerkt að þeim er ætlað að greiða fyrir rafrænni meðferð mála og tryggja að réttindi fari ekki forgörðum sökum kórónuveirufaraldursins.

Ég hef farið yfir þær helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Líkt og ég sagði í upphafi eru sumar þeirra varanlegar og aðrar til bráðabirgða. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.