150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara undir með hv. þingmanni að það er ótækt að málsmeðferðin sé með þessum hætti. Þeir aukafjármunir sem komu á þessu ári og fóru til embættisins á höfuðborgarsvæðinu áttu einungis að fara í að drífa í rafrænum þinglýsingum sem og að stytta málsmeðferðartíma í fjölskyldumálum. Þeir fjármunir áttu einungis að fara að leysa þau tvö vandamál. Að auki hef ég fært verkefni af höfuðborgarsvæðinu, og er að greina fleiri, út á land til að létta á því embætti, að auka rafræna þjónustu sem léttir líka á einhverju, gera eyðublöð rafræn til að mynda fyrir foreldra sem biðja um útlandaleyfi og annað slíkt sem ætti að vera einfalt en hefur tekið allt of langan tíma. Þetta er allt komið rafrænt og mun auðvitað muna um það. Ég held að öll þessi atriði saman muni skila árangri; að forgangsraða aukafjármunum sem fara núna til sýslumannsembættisins í þau aðalatriði, þar sem ótækt er að biðlistar séu svona langir, sérstaklega hvað varðar fjölskyldumálin, að flýta rafrænum þinglýsingum, að auka rafræna þjónustu og fjölga rafrænum eyðublöðum og færa verkefni út á land til að létta á embættinu.