150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort haft hafi verið samráð við Hagsmunasamtök heimilanna í ferlinu við að vinna frumvarpið. Ástæðan er sú að Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá hruni barist fyrir því að ekki sé gengið á eignarrétt þeirra sem eiga fasteignirnar, eiga heimilin og sér í lagi þegar þetta eru heimili fólks. Það er barátta sem samtökin hafa háð allan þennan tíma og mér þætti ekki góð vinna við frumvarpið að hafa ekki samband við Hagsmunasamtök heimilanna. Þau benda á málefnaleg atriði og eru eini aðilinn sem hefur sent inn umsögn við þetta mál. Samtökin benda á að núna er verið að heimila, til að ekki tapist réttaráhrif, kröfurétt þeirra sem lánuðu einstaklingunum, kröfurétt lánastofnana, stóru aðilanna, þeirra sem voru alltaf varðir eftir hrun. Þess vegna urðu Hagsmunasamtök heimilanna til, hæstv. dómsmálaráðherra í Sjálfstæðisflokknum, til að verja eignarrétt heimilanna, eignarrétt fólksins sem á náttúrlega að vera tryggður og settur samhliða eignarrétti kröfuhafa samkvæmt stofnsáttmála flokksins og þeim gildum sem hann grundvallast á. Ég spyr ráðherra hvort hún muni í vinnu nefndarinnar setja sig upp á móti því að auk allra þeirra rafrænu heimilda sem kröfuhafinn fær verði allar heimildir til staðar fyrir eigendur eignanna, fyrir heimilin, fyrir einstaklingana. Þarna er verið að heimila að gera hluti rafrænt til að réttaráhrif tapist ekki. Er þá einnig tryggt að alls konar frestir og slíkt sem sá sem krafan beinist gegn, þ.e. heimilin, hafi líka heimild, að heimildir hans til að fá fresti, biðtíma, koma á fundi o.s.frv. verði tryggðar? Setur ráðherra sig upp á móti því (Forseti hringir.) að heimilin og kröfuhafarnir standi jafnfætis í rafrænum lausnum í frumvarpinu?