150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[17:22]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði og lagði upp með það að þörf væri á því að þessar fjórar fyrstu greinar frumvarpsins væru líka tímabundnar af því að málið væri unnið hratt. Ég veit ekki af hverju þær ættu annars að vera tímabundnar. En það var það sem kom fram í máli hv. þingmanns áðan og við því var ég að bregðast með því að segja að við þessar greinar hefði verið mikil vinna. Það er bara verið að ryðja hindrunum úr vegi til að við getum haldið áfram rafrænum breytingum. Margar rafrænar breytingar hafa orðið að veruleika með reglugerðum og rafrænu Íslandi án nokkurra lagabreytinga af því að lagahindranirnar hafa ekki verið. Það hefur ekki staðið í lögunum að það þurfi að vera á blaði eða afhenda eigin hendi til að mynda, og það eru þær breytingar sem við erum að gera núna. Það hefur komið fjöldi eyðublaða inn á island.is sem eru einmitt nákvæmlega það sama og þessar fjórar greinar kveða á um, sem ekki hefur þurft lagabreytinga til af því að þær hindranir hafa ekki verið í vegi. Hér er einungis verið að ryðja úr vegi hindrunum fyrir mikilvæg atriði til þess að við getum hafið hér betri rafræna stjórnsýslu og það þykir mér sjálfsagt. Mér þykir sjálfsagt að það sé varanlegt og ég mun leggja til að mun fleiri atriði í íslenskri stjórnsýslu verði rafræn á næstu misserum.