150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það getur verið mjög dýrt fyrir samfélagið að vanrækja þennan málaflokk. Ég tel að ekki hafi áður verið gert jafn mikið átak í þeim málaflokki og í tíð þessarar ríkisstjórnar sem birtist mjög skýrlega í stjórnarsáttmálanum og í fjárlagatillögum undanfarinna ára. Við höfum sett af stað sérstakt átak til að gera betur þarna, m.a. í samstarfi við heilsugæsluna, og við höfum líka dregið úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Ég tel að með þeim aðgerðum sem þegar hafa verið kynntar og því sem hér kemur til viðbótar fyrri aðgerðum frá fyrri árum séum við að girða fyrir þann vanda sem hv. þingmaður bendir á að kunni að skapast. Það er ekki sú hætta að jafnvel fólk með lágar tekjur hafi hreinlega ekkert aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eins og áður var. Ég held að miklu frekar sé ástæða til að hafa áhyggjur af mönnun (Forseti hringir.) í þessum geira en of lítilli niðurgreiðslu stjórnvalda.