150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:18]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég minni hv. þingmann á að Vinstri grænir voru í síðustu kosningum með kosningaslagorðið „Gerum betur“. Ég er að brýna hv. þingmann og flokk hennar til að gera betur. Mér finnst ekki fullnægjandi þegar hv. þingmenn koma með fjárauka í þessum pakka sem eykur ríkisútgjöld um 1 prósentustig. Er það að gera betur? Það er of lítið. Ég veit að ef hv. þingmaður væri í annarri ríkisstjórn væri hún örugglega allt annarrar skoðunar. Úr því að talað er um að vera neikvæður hvet ég hv. þingmann til að skoða ræður sínar frá því að hún var í stjórnarandstöðu. Það er okkar hlutverk að hvetja til góðra verka og gagnrýna ykkur. Auðvitað er það mitt hlutverk. Ég vil sjá metnaðarfyllri tillögur varðandi velferðina og nýsköpunina. Finnst hv. þingmanni félagslegi pakkinn upp á 8,5 milljarða fullnægjandi þegar við mætum einni mestu kreppu í 100 ár? 8,5 milljarðar eru ekki neitt. Við erum að tala um 1.000 milljarða sem við höfum úr að spila, það eru fjárlögin. Landsframleiðslan er 3.000 milljarðar þannig að við getum gert betur.

Varðandi störfin sem hv. þingmaður talar um þurfum við að hækka atvinnuleysisbætur. Vill hv. þingmaður ekki hækka atvinnuleysisbætur? Við þurfum líka að búa til störf. Við getum fjölgað opinberum störfum. Ég tefli hérna fram öllum þessum punktum, ég er að reyna að senda hugmyndir til ykkar sem vonandi rata til ykkar að hluta til. Ég held að listamannalaunin hafi m.a. ratað til ykkar. Ég er að reyna að hafa áhrif á þessa blessuðu ríkisstjórn og draga fram ágreiningspunktana. Þið vitið úr hvaða átt ég mun koma og vonandi náið þið að hlusta eitthvað á þetta.

Við erum öll á sama báti, þið notið þann frasa, en sýnið okkur það þá. Takið eitthvert tillit, ekki bara til stjórnarandstöðunnar heldur líka til verkalýðshreyfingarinnar (Forseti hringir.) sem hefur sömuleiðis verið mjög krítísk á þessa pakka. Þetta er ekki bara rödd stjórnarandstöðuþingmannsins Ágústs Ólafs, verkalýðshreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar eru (Forseti hringir.) mjög krítísk á pakkana ykkar. Það er ekki hægt að dæma þetta sem neikvætt raus stjórnarandstöðuþingmanns (Forseti hringir.) því að það er það ekki.

(Forseti (BHar): Forseti ítrekar enn og aftur að hv. þingmenn virði tímamörkin.)