150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta snýst nefnilega svolítið um að við erum að leggja til fjármuni sem eiga fyrst og fremst að nýtast til aðgerða á þessu ári. Nú erum við að nálgast maí og við verðum að vera sannfærð um að það sem við erum að leggja til nýtist strax og við getum komið því í verk. Þegar hv. þingmaður talar um að bæta í alla þessa sjóði þannig að þeir bólgni út hefur hann enga vissu fyrir því að við getum nýtt allt þetta fé til að búa til störf. Hvorki hann né við höfum það í hendi okkar.

Við erum að bæta við frá síðasta pakka. Við erum að nota aðferðina sem þríeykið notar. Við látum líða aðeins á milli til að sjá hvernig hlutirnir virka. Hvar fellur eitthvað á milli? Það er enn þá verið að skoða og verður tekið fyrir næst, t.d. hlutabæturnar og annað slíkt sem við þurfum að vaða ofan í. Ég tek undir að við hljótum alltaf að vilja (Forseti hringir.) búa til störf, hvort sem þau eru opinber eða ekki — og þau eru opinber, það eru allir að verða meira og minna á framfæri hins opinbera. (Forseti hringir.) Við hljótum að geta sagt að nýsköpunin sem við erum að búa til sé opinber. Og „öll í þessu saman“ þýðir ríki, sveitarfélög og fólkið í landinu.

(Forseti (BHar): Aftur minnir forseti hv. þingmenn á tímamörkin.)