150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var einkum rétt í lokin sem hann var með vangaveltur um fyrirtæki og fólk. Það er nú einhvern veginn þannig í pólitík að einhver fer af stað með eitthvað og nefnir að heimilin séu bara utan dagskrár í þessu öllu saman og fólk sé ekkert inni í þessum aðgerðum. Byrjum bara á því að skoða hvað verið er að gera annars staðar í heiminum. Ef við tökum Norðurlöndin, þá eru þetta mjög sambærilegar aðgerðir. Hvernig horfum við á þetta, þar og hér? Við horfum á efnahagshringrás sem er mjög löskuð. Hverjar eru tvær grundvallarstoðirnar í efnahagshringrás? Það er fólk og fyrirtæki. Þau eru háð hvort öðru, vinnuafl annars vegar og framleiðslutækin hins vegar. Það er borgað í formi vinnulauna sem eru síðan notuð til að kaupa vöru og þjónustu. Þetta kallast verðmæti. Þessi umræða verður að stoppa. Það getur ekki hver komið á fætur öðrum og talað um þetta í þessu samhengi. Það er ekki hægt því að það er rangfærsla, þetta er bara vitleysa, hv. þingmaður, fyrirgefðu. Ég trúi því ekki að hér ætli að koma fleiri upp í þessa umræðu og tala á þennan hátt. Það er ekki hægt.

Síðan er ákveðin mótsögn í ræðu hv. þingmanns, af því að ég veit að hann er mjög nákvæmur, um markvissar og útfærðar aðgerðir og í takt við stefnu en hann segir á sama tíma að við hefðum átt að taka stærstu skrefin í byrjun þegar það var fullkomin óvissa. Út frá hvaða greiningu? Auðvitað er mjög eðlilegt að meðan við vindum ofan af þessu og áttum okkur á því hversu langt þetta fer og hversu mikið efnahagshringrásin laskast að við tökum þetta í markvissum skrefum og í takt við gildandi fjárlög. Það er beinlínis varað við því alls staðar af alþjóðlegum stofnunum (Forseti hringir.) að tækifærin séu notuð til að spreða peningum í allar áttir eins og ríkissjóður sé ótæmandi auðlind. Það er ekki þannig.