150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér í umræðu um það mál sem er akkúrat á dagskrá núna, þ.e. fjáraukann, að fara örlítið um víðan völl um þann aðgerðapakka sem ríkisstjórnin kynnti, jafnvel það sem þegar hefur verið gert og talað um að þurfi að gera meira. Mörg þeirra mála eru til umræðu síðar í dag. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi þessa ástands sem við erum nú að kljást við haft það í huga og tilkynnt um að horfa þríþætt á aðgerðir, hvernig þær verða og hvernig viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða. Við höfum sagt að við séum óhrædd við að gera það sem þarf að gera til að koma okkur í gegnum þetta. Það er alveg augljóst að það tekur breytingum nánast viku frá viku eða dag frá degi. Allt sem við sögðum þegar við stóðum hér og ræddum aðgerðir sem nauðsynlegar væru í upphafi þessa ástands er úrelt. Við getum flett því upp í þingtíðindum og lesið upp á árshátíðum þingmanna hve skammsýn við vorum öll.

Í öðru lagi höfum við sagt að þetta verði ekki eina stóra töfralausnin, ekki pakkinn sem segir til um að nákvæmlega núna ætlum við að leysa öll þessi vandamál, ekki síst út frá því sem ég nefndi áðan.

Í þriðja lagi höfum við alltaf sagt að þetta verði sérsniðnar og sértækar aðgerðir, muni ekki endilega ná heilt yfir, þó að það geti vel komið til greina að einhverjar þeirra geri það. Sérsniðnar og sértækar aðgerðir sem nýtast best þar sem þörfin er mest verða til þess að hver króna sem annaðhvort fer úr ríkissjóði eða ríkissjóður afsalar sér í hann nýtist sem best. Þess vegna höfum við alltaf sagt við hvert einasta skref sem við höfum stigið að þetta sé ekki Lausnin með stóru elli og greini. Þetta eru skrefin sem á að stíga núna, meira mun koma, höfum við alltaf sagt. Og meira hefur komið og meira mun koma.

Mig langar til að koma aðeins inn á það sem mér hefur þótt leitt að sjá í umræðunni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar, bæði pakkann sem kynntur var í gær og eins fyrri skref sem ríkisstjórnin hefur stigið. Við höfum heyrt aðeins í umræðunni í dag hjá sumum í stjórnarandstöðunni og víðar í samfélaginu, meira að segja frá verkalýðshreyfingunni, þá möntru að aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúist ekki um fólk.

Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessu harðlega. Hér er hlutum algjörlega snúið á haus ef það orðalag á einhvern tímann við. Af þeim fjármunum sem verið er að greiða þessa dagana úr ríkissjóði fara sennilega milljarðatugir inn á launareikninga fólks með viðkomu í fyrirtækjum. Ríkið hefur tekið að sér að greiða allt að 75% af launum starfsfólks. Er það launafólk ekki fólk?

Ríkisstjórnin hefur alltaf og fyrst og fremst haft í huga með aðgerðum sínum að vernda og varðveita ráðningarsamband, vernda störfin, til að sem fæst lendi í að missa vinnuna. Auðvitað munu einhver missa vinnuna og eins og ég nefndi í upphafi munum við þurfa að endurhugsa allar okkar aðgerðir eftir því sem fram vindur en þetta hefur verið það sem við höfum fyrst og fremst haft í huga.

Í gær voru kynntir og eru ræddir á þingi í dag styrkir til þeirra fyrirtækja sem var gert að loka starfsemi sinni, mörg hundruð þúsund krónur fyrir hvern starfsmann, 2,4 milljónir að hámarki. Er starfsfólk þeirra fyrirtækja ekki fólk?

Hér er talað um 600 milljónir í frístundastarf barna. Eru börn ekki fólk? 200 milljónir fara í Barnahús, hjálparsíma Rauða krossins, félagasamtök sem sinna ráðgjöf. Eru skjólstæðingar allra þessara aðila ekki fólk?

Hér er sérstaklega gripið utan um einyrkja. Þau í þeim hópi sem hafa orðið fyrir meira en 40% tekjufalli geta fengið lán upp á allt að 6 millj. kr. með 100% ríkisábyrgð. Eru einyrkjar ekki fólk, forseti?

1,5 milljarðar kr. fara í að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og lagfæra byggingar. Er fatlað fólk ekki fólk?

500 millj. kr. fara í Matvælasjóð til að efla innlenda matvælaframleiðslu. Hver neyta þessara matvæla? Er það ekki fólk? Hver framleiða matvælin? Er það ekki fólk?

Listamannalaun eru aukin um fjórðung úr milljarði. Þeim fjölgar sem fá listamannalaun. Eru listamenn ekki fólk?

1 milljarður fer í launaauka til heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínu í baráttunni gegn veirunni. Er heilbrigðisstarfsfólk ekki fólk?

2,2 milljarðar kr. fara í sérstakt átak til að fjölga störfum fyrir námsmenn, 800 milljónir í sumar. Eru námsmenn ekki fólk? Hér ber að geta þess að áhersla ríkisstjórnarinnar hvað varðar þann vanda sem námsmenn standa augljóslega frammi fyrir í sumar hefur fyrst og fremst verið sú að skapa störf fyrir námsmenn, skapa leiðir fyrir námsmenn til að stunda sumarnám og halda þannig áfram námsframvindu sinni.

Ég gæti haldið áfram að nefna þá hópa sem munu njóta beint þeirra aðgerða sem við erum að fjalla hér um í dag. Allt tal um að þessar aðgerðir snúist ekki um fólk er rangt. Sumum þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur kynnt hefur verið komið til framkvæmda, aðrar erum við að fjalla um núna, en þær snúast fyrst og fremst um fólk. Allt fólk, þetta sama fólk, sér það ef það hugsar út í og skoðar þessar aðgerðir og metur þær af sanngirni. Við erum ekkert annað en fólk, við sem byggjum þetta samfélag, hvort sem það erum við í þessum þingsal, við í samfélaginu öllu, við í smærri samfélögum eins og fyrirtækjum, öll erum við fólk sem saman erum að komast í gegnum þetta ástand og að því fólki er ríkisstjórnin að huga.