150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[17:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú þegar verið er að setja fjármuni úr sameiginlegum sjóði okkar allra til að mæta mjög alvarlegu ástandi til að vinna gegn atvinnuleysi og stuðla að því að umsvif geti strax farið af stað og aukist þegar faraldurinn hefur gengið yfir hljóta stjórnvöld um leið að leggja vandlega mat á það hvernig það er best gert. Þess vegna skil ég vel að sett séu skilyrði fyrir stuðningslánum og öðrum aðgerðum stjórnvalda. Í greinargerð með frumvarpinu segir að rekstraraðili geti ekki fengið stuðningslán nema ætla megi að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru liðin hjá. Síðan er sagt að skilyrðin verði útfærð nánar með reglugerð eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra meta á þessum óvissutímum hvaða ferðaþjónustufyrirtæki verða t.d. rekstrarhæf og hver ekki eftir að faraldurinn er genginn yfir? Hvenær er von á reglugerðinni?