150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vantaði svar við spurningunni um hvað gerist eftir þetta 12 mánaða tímabil ef maður er með inneignarnótu, fær maður endurgreiðslu þá? Í öðru lagi, ef þetta er heimild fyrir skipuleggjanda eða smásala að endurgreiða ferðamanni, þá er væntanlega ekki mikil hvatning til þess að bjóða upp á inneignarnótu með einhvers konar viðbót, en það væri það ef möguleiki væri á endurgreiðslu strax eða inneign. Það myndi heldur ekki ganga á réttindi, það væru í raun aukin réttindi ef boðið væri upp á inneignarnótu með einhverjum bónusum sem væri endurgreidd eftir 12 mánuði ef hún nýtist ekki. Ég fékk t.d. boð um að endurskipuleggja ferð og það gilti fram í nóvember eða eitthvað svoleiðis, það var ekki einu sinni ár, það er ekki séns að nýta slíkt. Þessar endurgreiðsluhugmyndir voru mjög skrýtnar og mann grunaði að það væri verið að svindla dálítið á pakkaferðalögunum með þessum boðum um inneignarnótur o.s.frv., til styttri tíma, þannig að maður kom ekki nálægt því. En fær maður endurgreitt eftir 12 mánuði ef maður er ekki búinn að nota inneignarnótuna og ef hún hefði verið boðin með bónus, fengi maður bónusinn?