150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því að því er haldið fram að inneignir gjaldþrota fyrirtækja sé einskis virði fyrir neytendur. Það er einfaldlega ekki rétt. Undir venjulegum kringumstæðum eru inneignir gjaldþrota fyrirtækja einskis virði en í þessum aðstæðum eru þær vissulega einhvers virði vegna þess að fyrirtækinu ber skylda til að vera með tryggingu. Jafnvel þótt fyrirtæki fari í þrot falla inneignirnar undir þá sérstöku tryggingavernd þannig að neytendur fá endurgreitt úr þeim tryggingum sem hverju og einu fyrirtæki ber skylda til að hafa. Tryggingarfjárhæðirnar miðast við ákveðna reiknireglu sem í einfaldri mynd miðar við umfang reksturs 2019 og bókunarstöðu 2020, þannig að þær eru náttúrlega mjög misháar. Þess vegna var hluti af þeirri vinnu sem leiddi til þeirrar tillögu sem birtist í frumvarpinu að fara yfir stöðu þessara fyrirtækja, sérstaklega stærri fyrirtækja vegna þess að umsvifin eru að langmestu leyti þar. Þar liggur fyrir að tryggingarfjárhæðirnar eru hærri en útistandandi kröfur. (Forseti hringir.) Það að inneignir gjaldþrota fyrirtækja séu einskis virði er ekki rétt í þessu tilfelli vegna þess að þær eru vissulega tryggðar.