150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[21:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það hvernig ég sé fyrir mér rekstur sjóðsins. Ég er í rauninni ekki með neinar ákveðnar hugmyndir um það. Við höfum ákveðið fyrirkomulag á þessum tveimur sjóðum í dag og við erum svo með fleiri sjóði sem eru vistaðir á ýmsum stöðum í kerfinu í dag. Það má alveg skoða að vinna það með einhverjum hætti saman þannig að þetta komi allt á einn stað í eina umsýslu. Ég er opinn fyrir öllu þessu. Þetta verður bara hluti af því og þeirri stefnumótun sem fram undan er, að því gefnu að þetta verði samþykkt, sem ég reikna með vegna þess að þetta mál er í fullkomnu samræmi við þann eindregna vilja sem kom fram í afgreiðslu þingsins 19. júní á síðasta ári.

Hv. þingmaður spyr hvernig fjármögnuninni verði háttað. Það liggur ekkert fyrir um fjárlög næsta árs eða næstu ára en að sjálfsögðu treysti ég á að þetta framlag verði að hluta eða í heild endurtekið inn í þennan sjóð og mun að sjálfsögðu leggja slíkt til. Þetta er gríðarleg breyting á framlögum þarna inn. Á sama tíma erum við að ræða breytingar á undirstofnun ráðuneytisins sem heitir Matís þar sem ráðuneytið er að verja til viðbótar þessu rúmum 400 milljónum til nýrra verkefna. Þetta held ég að þurfi að skoða allt í samhengi og ég er eindregið þeirrar skoðunar að sú staða sem er að koma upp í matvælaframleiðslu í veröldinni kallar á að við förum í gegnum alla þessa þætti hjá okkur. Sá áfangi, að vera kannski með 800 milljónir í þessum sameinaða sjóði er gríðarlega stórt stökk og mun tala við þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin er með í gangi varðandi matvælastefnu sem er ætlað að marka stefnu okkar og áherslur til komandi ára á þessu sviði sem okkur Íslendingum er svo mikilvægt.